Við viljum breytt ástand, eitthvað til að hrista upp í lífinu. Kveikja eða slökkva á okkur. Ýta hlutum af stað eða stöðva þá. Við viljum ást, kynlíf og hamingju.
Í þessu áleitna sagnasafni tekst Berglindi Ósk á við hjörtun sem þrá, heimta meira eða vilja einfaldlega finna frið. Að partýið haldi áfram að eilífu, að temja fíknina, að losna úr ofbeldissambandinu – finna leið til að hverfa eða raða sér saman að nýju.
Sögur Berglindar Óskar draga upp djarfa mynd af íslenskum samtíma. Þær ögra lesandanum og sýna að leiðin frá kyrrlátu reykvísku úthverfi yfir í jaðar samfélagsins er styttri en flesta grunar.
Berglind Ósk fæddis árið 1985 í Kópavogi. Hún hefur áður gefið út ljóðabækurnar Berorðað (2016) og Loddaralíðan (2021). Einnig hafa ljóð, sögur og þýðingar eftir hana birst í ýmsum tímaritum.
Ótrúlega sterkar og skemmtilega samfléttaðar sögur úr völundarhúsi mannlegrar tilveru. Stíll Berglindar er meitlaður og nándin í sögumannsröddinni er allt að því hættuleg þar sem maður fer að hætta að veita því athygli að um skáldverk sé að ræða.
Allir helstu kostir smásagnaformsins sýna sig í þessu hnitmiðaða safni svo að hægt er loks að vona að smásagan eigi endurkvæmt í íslenska bókmenntaflóru sem meira en upphitunartól gamallra skáldsagnajálka.
Fyrsta bók ársins var ekki af verri toganum. Frábærar smásögur eftir Berglindi Ósk sem allar lýsa ástandi í lífi fólks sem það vill breyta eða sem óvart eða viljandi breytist. Vatnaskilum í lífi fólks eins og kvöldið sem breytti þér í dópista eða svefninn og hvíldin sem þú stefnir á að ná svo þú getir nú farið að byrja í ræktinni og málað geymsluna. Skrifaðar af mikilli næmni. Stórskemmtilegar.