Steinar Bragi hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn frumlegasti höfundur landsins. Hér fer hann með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og torkennilegur hlutur birtist á himni. Síðasta skáldsaga Steinars, Truflunin, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Steinar Bragi Guðmundsson (who publishes under his first two names only) has a BA in Literary Studies and Philosophy from the University of Iceland. His first published work was a volume of poetry, Svarthol (Black Hole), which came out in 1998. Since then he has written several books, both poetry and novels.
Dáin heimsveldi er rosaleg bók, hreinræktuð sci-fi dystópía sem er í senn spennandi og sjokkerandi. Þetta er ekki auðveld bók og ég er enn að melta hana eftir lesturinn. Söguheimurinn fannst mér magnaður og hefði ég verið til í að fá meiri baksögu um af hverju heimurinn varð eins og bókin ber vitni. Ýjað er að stjórnlausum loftslagsbreytingum og einhvers konar heimsstyrjöld og gaman hefði verið að fá að vita meira um það, þótt ég skilji að höfundur hafi ekki viljað útskýra of mikið. Þá er bókin svolítið hrá og ekki alveg jafn vel meitluð og síðasta bók Steinars, Truflunin, þótt finna megi ýmis líkindi með þessum tveimur vísindaskáldsögum.
Það er frábært að jafn hæfileikaríkur höfundur og Steinar Bragi sé farinn að skrifa sci-fi og vonandi verður það til þess að hefja þessa vanmetnu bókmenntagrein til vegs og virðingar hér á landi. Ég mæli hiklaust með Dánum heimsveldum fyrir alla sem kunna að meta dystópískan vísindaskáldskap, með þeim fyrirvara að bókin er bæði nöturleg og niðurdrepandi og því eflaust best að húmanistar og óhóflega bjartsýnt fólk haldi sig frá henni. Við ykkur hin segi ég bara skál fyrir falli mannkyns!
Ég gat ekki lagt hana frá mér og get núna ekki hætt að hugsa um hana.
Frumleg, dökk og eiginlega heldur ógeðsleg einhvernveginn. Það er einhver undirliggjandi tilfinning í henni sem ég nam ekki strax og kom svo ekki alveg orðum að, en í lok bókarinnar skildi ég hvaðan tilfinningin kom. Segi ekki meir til að skemma ekki fyrir öðrum, en mikið er sagan vel sögð - plottið snúið og endirinn góður.
Spennandi, óþægileg dystópía. Situr í manni eftir lesturinn. Veit ekki alveg hvort ég skilji allt sem gerðist en veit heldur ekki hvort mér sé ætlað að skilja það. Vantaði eitthvað til þess að hún hitti 100% í mark en mæli þó klárlega með fyrir öll sem fíla vísindaskáldskap með hryllings ívafi.
Mjög skemmtileg poppvísindaskáldsaga sem hélt mér allan tímann. Höfundur leyfir sér oft og tíðum að dýfa bókinni í klisjur og lendir í því að minna mann fullmikið á merkari verk. Á endanum fannst mér hún samt smella saman og skapaði duglegar umræður á heimilinu.
Einhvern veginn hafði það farið fram hjá mér að Steinar Bragi væri farinn að rita vísindaskáldsögur. Ég hafði drukkið í mig bæði Konur og Kötu og fundist báðar frábærar. Ég var ekki eins hrifinn af Himninum yfir Þingvöllum en kraftmikill og óbeislaður stíllinn höfðaði engu að síður til mín. Það kom mér því skemmtilega á óvart þegar það rann upp fyrir mér á fyrstu blaðsíðunum að Dáin heimsveldi væri þvottekta vísindaskáldskapur og það á kjarnyrtri íslensku. Íslendingar hafa ekki átt margar góðar slíkar og höfum meira að segja heykst á að þýða þær að einhverju magni. Mögulega fundist það skrítið að nota íslensku yfir hugtök og hluti sem við erum vön að hugsa um á ensku. En ekki hér. Þetta er nákvæmlega það sem við þurfum! Hugsum á íslensku.
Ég er einlægur aðdáandi íslenskra vísindaskáldsagna og fannst sú síðasta frá SB alveg upp á 10. Hér er framtíðin enn magnaðri og fannst mér sviðsmyndin, útsjónarsemi og hugmyndaauðgin alveg stórkostleg. Ég gæti alveg ímyndað mér þessa framtíð eða eitthvað mjög sambærilegt. "Hluturinn" gaf viðbótarvídd í þetta allt saman. (Ég fór reyndar of að hugsa um The Cube úr Rusty Lake, room escape leikjunum en það spillti ekkert fyrir). Undir lokin gat ég ekki lagt bókina frá mér. Það var kannski eini gallinn að annað hvort náði ég ekki endinum eða varð ekki fullsaddur af plottinu. Ég þarf líklega að ræða það við annan lesanda. Megin niðurstöður lestrarins er fanta góð óræð scifi bók.
3,5. Tókst ekki á það flug sem ég veit að Steinar Bragi er fær um að framkalla. Fjölmargar blaðsíður fara í að leggja á borð og skapa heiminn, enda allt svaka framandi. En ávöxtur þess erfiðis kveikti ekki í mér. Nema auðvitað nokkrir sprettir, síðustu þrjátíu blaðsíðurnar og … spoiler… truflaðar senur sem gerist inn á netinu þegar einhver er hakkaður. Þrátt fyrir að lestrarupplifunin hafi ekki staðið undir væntingum er ég sólginn í meira og hlakka til að lesa Truflunina.
2,5 - Var rosalega spennt fyrir þessari þar sem ég var mjög hrifin af Trufluninni, en ég átti frekar erfitt með hana. Það er eins og hún hafi verið skrifuð í flýti og að hugmyndin, sagan og textinn hafi því orðið frekar messy og ruglingslegt allt saman. Eða kannski fílaði ég söguna bara ekki, þótt mér finnist grunnhugmyndin mjög áhugaverð.
Þessi kom skemmtilega á óvart. Heimurinn sem búinn er til er þéttur og með nægri dýpt til að sjá fyrir sér sögusviðið, sem er stór hluti af sjálfri sögunni. Persónur eru skýrar og maður nær góðri tengingu við þær. Rúsínan í pylsuendanum svo tillaga að því hvernig himnaríki/helvíti lítur út í framtíðinni, og líklega verður það sami staðurinn.
Kannski smá brutal, en ég var bara ekki fan. Mér fannst hún aldrei komast á almennilegt flug, og ég var orðin mjög óþreyjufull að klára hana. Síðustu blaðsíðurnar voru kannski bestar.
Ef að gefa ætti verðlaun fyrir glögga innsýn í breyska og skammsýna lifnaðarhætti mannkynsins —og áhrifin sem þeir hafa— þá hlyti Steinar Bragi mitt atkvæði.
Óneitanlega hættir manni, sem lesanda, til að vilja bera Dáin heimsveldi saman við fyrri bók Steinars, Truflunina —báðar eru þetta sci-fi sögur sem gerast í fjarlægri framtíð og tala til þeirra váa sem steðja hvað skarpast að okkur í dag— en það er í raun þar sem bækurnar víkja hver frá annarri sem að töfrarnir í sýn og prósa höfundar koma hvað sterkast fram. Þá er kannski fullsterkt til orða tekið að tala um að þær víki hver frá annarri því munurinn í bókunum liggur í sjónarhorni. Hann víkur að vandamálum nútímans út frá tveimur mismunandi vinklum í verkunum tveimur; ræðst að loftslagshamförum með tæknitali og ppm (parts per million) tölum í Trufluninni og talar þar með til röksemdar okkar; en veitist svo hatrammlega að tilfinningum okkar í Dánum heimsveldum, með beinskeyttri fyrstu persónu frásögn einhvers sem hefur þurft að lifa afleiðingarnar. Þá er áhugavert að skoða að séu frásagnirnar skoðaðar í samfloti verða forsendur og atburðarás þeirra atburða sem vitnað er til í Dánum heimsveldum töluvert skýrari.
Glögg ádeila á tækni- og netfíkn er líka afar vel lögð fram, þar sem tilteknir höfundar hafa reynt að predika yfir fólki með bókum sem nánast löðrunga lesandann fyrir að hafa ekki meiri sjálfsstjórn í návígi við tækjabúnað sem þróaður er til að hneppa fólk í ánauð þá sýnir Steinar fram á, með óvæntri samkennd og nærgætni, hvernig komið verður fyrir okkur eftir því sem þessum tækjum tekst að verða fullkomnari og tekst enn betur að halda okkur "við efnið."
Dánum heimsveldum tekst ekki að ríghalda lesandanum á síðustu síðunum, eins og Truflunin, en það er ekki þar með sagt að bókin haldi lesendum ekki. Eftir að hafa lokið Trufluninni langaði mig að byrja strax aftur á henni og sjá hvernig það væri að lesa hana aftur —vitandi það sem ég vissi eftir lesturinn. Eftir Dáin heimsveldi var sú tilfinning ekki jafn sterk en bókin sat mun betur í mér. Spurningarnar sem leituðu á mig við lesturinn sátu eftir, hugvekja sögunnar lá á mér eins og mara —og gerir enn.