Það var engin spurning að þessi bók var efst á mínum óskalista fyrir jólin hafandi starfað sem hagfræðingur fyrst í Þjóðhagsstofnun og síðar í fjármálaráðuneytinu í miklu samstarfi og samneyti við Seðlabankann mest allan starfsaldur minn. Þar af í tuttugu síðustu ár Jóhannesar sem bankastjóri Seðlabankans. Bókin í heildina var mjög fróðleg og upplýsandi, ekki síst um hversu fjölbreyttum verkefnum höfundur kom að, ekki bara á sviði efnahagsmála, þeim var ég mjög vel kunnugt um. En allt hitt, hvort sem var á sviði menningarmála o.fl. Það var meira en ég hafði gert mér grein fyrir.
Það var fróðlegt að kynnast uppvaxtarárum höfundar sem og þeim persónulegu tengslum við fjölmarga einstaklinga sem hann var í, fyrst kannski í gegnum föður sinn, en síðan auðvitað ígegnum sín eigin tengsl. Þessi hluti bókarinnar var kannski á köflum langdreginn en aðrir kaflar bæta það svo sannarlega upp.
Millikaflarnir um eftirstríðsárin voru mjög fræðandi þótt ég hafi auðvitað þekkt þá sögu nokkuð vel. Áhugaverðasti hlutinn að mínu mati voru árin sem ég var sjálfur kominn til starfa, eftir 1974, og þá kynntist maður vel störfum Jóhannesar í nokkru návígi sem hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun á þeim sviðum þar sem samskiptin við Seðlabankann voru mjög náin.
Það var síðan lokahlutinn þegar Jóhannes var löngu hættur störfum sem mér fannst mjög fróðlegt að heyra hans mat á aðdraganda og orsökum bankahrunsins 2008. Þar var hann algjörlega með puttann á púlsinum með sína greiningu á helstu orsökum þess, þ.e. glæfralegri áhættustefnu bankanna sem á endanum leiddi til bankahrunsins. Ég hefði gjarnan þegið að hans rödd hefði heyrst fyrr.
Bókin fær hæstu einkunn hjá mér og finnst aðdáunarvert að Jóhannes hafi ráðist í þetta verkefni, 98 ára gamall.