Það verður að teljast vel af sér vikið að ráðast í það að skrifa bók um hrunið innan við einu ári frá því að bankarnir hrundu. Frásögnin er vel undirbyggð með heimildum, sem eru þó misjafnlega traustar. Í mörgum tilvikum er vísað í þekktar heimildir, jafnt í fjölmiðlum sem á fundum. Stundum er þó um óskrifaðar heimildir að ræða eða jafnvel mat höfundar á því hvað kunni að hafa verið sagt eða átt sér stað. Bókin er mjög læsileg, á köflum minnir hún frekar á fréttir en sagnfræði, enda ekki til þess stofnað svona skömmu eftir hrunið.
Ég kannast mjög vel við efnið í krafti míns embættis sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu á þessum árum. Það hefur verið fróðlegt að lesa sumar þeirra bóka sem síðar hafa komið út og fjalla um aðdraganda og eftirköst hrunsins. Þær hafa verið misjafnar að gæðum. Ég myndi helst mæla með bók Hannesar Hólmsteins sem heitir Landsdómsmálið og kom út í fyrra. Hún gefur að mínu mati besta mynd af hruninu, orsökum og eftirhretum.