Björg C. Þorláksson fæddist árið 1874 í Vesturhópshólum í Húnaþingi. Hún braust til mennta af ótrúlegum dugnaði og varð fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi. Sögu þessa brautryðjanda meðal íslenskra kvenna og framlag hennar á sviðum vísinda og fræða hafa fáir þekkt fram til þessa. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hefur rannsakað ævi og verk Bjargar um árabil og sviptir hér hulunni af óvenjulegri konu sem fór sínar eigin leiðir og trúði á mátt manna til að skapa sig sjálfir. Sagan segir frá sveitastúlku sem komst á kvennaskóla og þaðan til Kaupmannahafnar þar sem hún tók stúdentspróf og fór í háskóla. Hún segir frá hjónabandi hennar og Sigfúsar Blöndal og þætti hennar í hinu mikla stórvirki, Íslensk-danskri orðabók. Hér er greint frá fræðistörfum Bjargar og þátttöku hennar í kvennabaráttunni á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, veru hennar í Þýskalandi og Frakklandi og baráttu hennar við illvíga sjúkdóma. Þetta er saga konu sem skóp sig sjálf í trássi við viðteknar hugmyndir um hlutverk kvenna, harmsaga mikillar kvenhetju og merks brautryðjanda.
Mögnuð ævisaga fyrstu íslensku konunnar sem fékk doktorsgráðu. Einnig skrifaði Björg skrifaði fyrstu íslensk-dönsku orðabókina með eiginmanni sínum Sigfúsi Blöndal en það tók þau 22 ár auk þess sem hún skrifaði næringafræðibækur, þýðingar og ýmsar fræðigreinar. Ég vissi ekkert hver Björg var fyrir nokkrum dögum en er ótrúlega ánægð að hafa lesið ævisögu hennar og kynnst hennar brautryðjendastarfi! Björg vildi ekkert frekar en að vera fræðimaður, en á hennar tíma var það ekki mögulegt fyrir konur og hún hlaut aldrei þá viðurkenningu sem hún verðskuldaði. Myndi mæla með þessari bók fyrir alla.
Mjög flott og frábærlega upplýsandi ævisaga. Ég gat varla látið hana frá mér. Hafði aðeins óljósar spurnir af Björgu en nafnið hennar drukknaði innan um aðrar kvnréttindakonur, Bríet o.fl. Bókin er vel studd af gríðarlegri heimildarvinnu og jöfnum höndum dregnar fram jákvæðar sem neikvæðar hliðar af persónunni Björgu og fræðimannshliðinni. Yfirferð Bjargar á milli landa og ótrúleg elja hennar við bæði öflun meiri og meiri menntunar og ekki síður öflun fjár til þess að standa undir sjálfri sér lýsa vel sterkum karakter sem veit hvað hún vill.