Hið sígilda meistaraverk Þórbergs Þórðarsonar, Bréf til Láru, kom fyrst út í desember 1924. Bókin olli miklu fjaðrafoki og deilum en boðaði um leið nýja tíma í íslenskum bókmenntum. Ýmsum sveið undan hárbeittri ádeilu verksins en þó er það ekki síst stórkostleg sjálfslýsing höfundar sem gerir Bréf til Láru að sígildri bók. Óborganlegur húmor Þórbergs nýtur sín til fulls í átölum hans og skopi sem hann beinir í allar áttir – ekki síst að sjálfum sér.
Fyrsta bókin sem ég les eftir Þórberg og ég veit ekki alveg hvað mér finnst. Margar áhugaverðar sögulegar samlíkingar og pælingar. Sumt fannst mér samt hafa elst frekar illa og kaflarnir einnig misgóðir, þrátt fyrir að ég átti mig vissulega á sögulegu samhengi bókarinnar. Hún er fyndin, hnyttin og beitt en mér fannst samt stundum birtast einhver hroki sem bitnaði á inntaki textans. Held að ég þurfi að melta hana aðeins lengur.
Þvílíkur rússibani! Þórbergur fer hérna um íslenskt samfélag berskjalda og berrassaður, með brýnda dan-öxi og gerir atlögu á allt sem verður á vegi hugar hans.
Það eru sumir að hneykslast á hrokanum í honum, en ég myndi segja að það er nákvæmlega það sem gerir hana svona góða; hann virðist segja nákvæmlega það sem hann vill segja og talar nákvæmlega um það sem hann vill tala um. Hann fer ekkert leynt með hrokann og er stoltur af honum. Ég held, að ef það væri kept í hógværð, þá hefði Þórbergur talið sig vera sigursælastur af öllum alltaf.
Fyrir mér er þetta verk um fáránleikann sem er hið mannlega ástand og hugsun. Gat stundum verið óþægilegur spegill.
Virkilega skemmtileg bók; fyndin, fræðandi og glettin. Mjög mikið af endurtekningum sem ég hafði ekki alltaf þolinmæði fyrir.
Mun sennilega verða mín uppáhaldsbók eftir Þórberg, en ekki hans besta verk. Hann átti langt í land frá þessari og Íslenzkum aðli, ritsnilld hans átti bara eftir að verða betri. En öfgar bókarinnar komu mér í gott skap, og ég hlakka til að lesa hana aftur í framtíðinni. Byltingin hættir aldrei.
Furðuleg bók sem fer stundum aðeins of djúpt í ómerkilega hluti. En oftast þó hlaðinn sjálfsdýrkun og hroka sem ég elska, Þórbergur er skoðannabróðir minn í næstum öllu. Fæ mikið "aha" kikk við að lesa þessa bók og það eru klausur í bókinni sem ég óska mér að hver einasti unglingur myndi lesa. Það er ótrúlegt hvað þessi bók á mikið erindi enn í dag og ótrúlegt hvað Þórbergur er beittur og beinskeyttur jafnvel miðað við nútímastaðla, ef maður vissi ekki hvað hann er með svartann húmor myndu flestir halda að hann væri hundleiðinleg frekja eða jafnvel vitfirringur.
var asnalega lengi með þessa sem segir kannski einhvað…. en a sama tima naut eg i miklu magni👍 otrulegt hvað hun innheldur mikið bull og mikinn sannleika
Eftir að hafa verið mörg ár í Íslenskunámi í gaggó og menntó þá hafði ég lesið annaðhvort skrafþurrar Íslendingasögur eða einhverjar uppstrílaðar og ljóðrænar krísubækur um miðaldrakreppu höfunda. Það er ekki skrýtið að ég tengdi ekkert við Íslenskar bókmenntir. Í einhverjum kúrsi var ég látinn lesa Ofvitann og fannst hún alveg æðislega skemmtileg. Þórbergur var kjánalegur unglingur eins og ég og skrifaði um það af því mér fannst mikilli listisemi og húmor. Núna um 30 árum seinna les ég loksins aðra bók eftir hann.
Þórbergur er augljóslega með heila sem stoppar ekki og hugsar djúpt um allt og í allar áttir og um það er þessi bók. Hann var eldklár, eins og þessi bók sýnir, en því að vera svona extra klár fylgja oft því miður allskonar andlegir kvillar, sem Þórbergur er klárlega með nóg af líka og virðist sem betur fer gera sér grein fyrir þeim. Þessi bók er í dag 97 ára gömul en hugmyndir um hans um heiminn eiga eiginlega flestar erindi í dag. Helsti styrkur Þórbergs er að geta séð samfélagsleg kerfi og tengingar á hærra plani og séð og lýst stóru myndinni. Helsti ókostur hans er að hann er hrokafullur og yfirlætisfullur, sem er ekki mjög klókt, því að það er svo létt fyrir fólk sem er andsnúið skoðunum hans því að setja hann og merkja í rugludallaflokkinn. Þessi bók er þó fyrst og fremst skemmtileg lesning og aldrei leiðinleg og því fær hún 4 stjörnur hjá mér.
Það er kannski full mikið af því góða að lesa Bréf til Láru strax á eftir uppgjöri HKL við Stalínismann í Skáldatíma. Óhætt er að segja að það kveði við nokkuð annan tón hjá Þórbergi þar sem Bréfið er nánast ein samfelld lofrulla um kommúnismann og gagnrýni á íhaldsstefnuna, auðvaldið vonda, auk þess sem prestastéttin fær sinn skerf af gagnrýni, einkum fyrir að hafa vikið illilega af þeirri leið sem kristin trú hafi boðið í sinni upprunalegu ynd. Bréfið er reyndar skrifað 1925. Síðan lendir höfundur í miklum bréfaskriftum um annars vegar gagnrýni sína á prestastéttina auk almennari gagnrýni fyrir meintan hroka í skrifum sínum.
Ég verð að viðurkenna að ég var kominn með upp í kok þegar leið á bókina, sérstaklega með seinni hlutann. Held ég haldið mig framvegis frekar við léttari og skemmtilegri lesningu hjá Þórbergi en í Bréfinu.
Bréf til Láru er skemmtileg speglun á þjóðfélaginu sem var fyrir 100 árum.
Bókin er frekar frábrugðin öðru sem ég hef lesið eftir hann. Bæði Íslenskur aðall og Ofvitinn eru sögur frá byrjun til enda. Þessi bók er miklu meira ritgerða- eða pistlasafn með ádeilu á þjóðfélagið. Ég skil hvers vegna hún olli miklum usla þegar hún kom út
Það sem kom mér skemmtilegast á óvart var hversu lítið hefur breyst í íslenskri samfélagi síðan á millistríðsárunum. Við erum ennþá að rífast um einangrunar og alþjóðahyggju. Frjálshygga gegn félagshyggju. Samband valdastéttar og auðmanna og auðvitað hvert hlutverk ríkisins á að vera í vísindum og listum.
Myndi segja mjög sterkur þristur. Bókin er skemmtileg og fróðleg, en ég hefði viljað heyra meiri sögu og þess vegna finnst mér aðrar bækur eftie Þórberg standa fremri
Langaði til að lesa þessa bók þegar ég var á ferð um Suðursveit í fyrra. Fann hana upp í bókahillu (eintak frá pabba) og tók hana með. Var komin nokkuð vel áleiðis þegar ég rakst á komment á spássíunni - skrifað af mér. Fór að skoða bókina betur og sá að hún var öll útkrotuð af sjálfri mér. Hafði sem sagt lesið hana fyrir um 20 árum en mundi ekkert eftir því. Það finnst mér enú ekki merki um að hún hafi skilið mikið eftir. Gef henni því 3 stjörnur.