Minn hlátur er sorg. Ævisaga Ástu Sigurðardóttur. Friðrika Benónýs skráði.
Hún var skapheit og ástríðufull listakona sem bjó yfir miklum hæfileikum, en ljós og skuggar tókust á um líf hennar og sál. Hún var dáð og fyrirlitin, elskuð og fordæmd. Hennar biðu um síðir bitur forlög. Í þessari einstæðu ævisögu er lífsþorsta, brestur og óblíðri ævi Ástu Sigurðardóttur lýst af næmri samkennd og innsæi.
Frá því að ég kynntist Ástu Sigurðardóttur þegar ég las og svo seinna kenndi íslenska bókmenntasögu hefur mér alltaf þótt hún sveipuð mikilli dulúð og leynd. Ég vissi að hún lifði óvenjulega lífi fyrir konu um miðja síðustu öld. Var skáld og myndlistamaður, bóhem, óvenjulegt peð í tafli bókmennta. Módel svölustu portrettmyndar tuttugustu aldarinnar. Eiginkona Þorstein frá Hamri og móðir barna þeirra. Meira vissi ég ekki en þetta allt segir aðeins hálfa söguna – ef það. Dulúðin og leyndin segir meira um mig en Ástu því ég hef hreinlega aldrei gefið mér nægan tíma til að kynnast henni betur fyrr en nú þegar ég las ævisögu Friðriku Benónýs, Minn hlátur er sorg. Það er ekki eins og ég hefði ekki getað gert það fyrr. Bókin kom út fyrir tæpum 30 árum og ég hefði því vel getað gluggað í hana þegar áhuginn minn á Ástu kviknaði fyrst. En ég kaus greinilega að svipta ekki hulunni af ímyndinni.
Ásta var ekki aðeins skáld og bóhem, sem er sú mynd sem er venjulega dregin upp, heldur móðir sex barna, eiginkona, skáldkona sem þráði fátt meira en að lifa í skáldskap, fíkill. Hún lifði í tveimur heimum og var „í lausu lofti á mörkum skáldskapar og raunveruleika, en hefur þó aldrei fótfestu í öðru hvoru.“ (170) Hún hafði miklar hugmyndir um skáldskaparlistina og hvernig hún ætlaði að helga lífi sínu henni en draumarnir voru „stórir og bjartsýnir. Framkvæmdin lítil og svört.“ (170)
Smátt og smátt missir Ásta tökin. Hún verður undir í baráttunni við bakkus og tapar öllu. Þar á meðal börnunum sem hún elskaði meira en allt en leitin að vímunni getur verið ástinni yfirsterkari og hún var það svo sannarlega í hennar tilfelli. En hún vildi alla tíð meira en „þráin eftir eðlilegu lífi eykst eftir því sem hún fjarlægist það meira“ (171). Ásta skrifaði börnunum sínum hvar sem þau voru í fóstri hverju sinni. Í einu bréfinu sést að hún hefur áhyggjur af menntun þeirra og áhugi hennar á íslenskum bókmenntum og ást hennar á íslenskri tungu skín í gegn:
„Nota Bene! Reynið að læra utanbókar öll beztu kvæðin, t.d. Ásareiðina eftir Grím Thomsen og Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson. Einnig athugið þið að reyna að læra þulur Theodóru Thoroddsen utanbókar og skilja málið, skynja hvernig íslenskan glitrar einsog hrím í hvítalogni.“ (175)
Eins og Friðrika segir í inngangi reynir hún ekki að rekja ævi Ástu frá ári til árs heldur að draga upp mynd af Ástu „í eins sannferðugum litum og [henni] er unnt.“ (9) Ég naut lestursins mikið og bókin og ævi Ástu mun eflaust hafa einhver áhrif á mig til lengri tíma. Bókin er mjög fallega skrifuð og í henni eru málsgreinar sem hafa strax og bein áhrif, t.d. þessi fína áminning:
Og kannski er allt sem okkur þykir varið í af þessa heims hlutum hverfult og einskis nýtt tál. – En maður þarf langan tíma til að skilja það, – ef til vill all æfina. Það er kuldaleg staðreynd. (38–39)
Systir mín fær bókin lánaða á eftir. Ég mæli með að aðrir fái hana lánaða á næsta bókasafni.
Bókin er ekki bara ævisaga skáldkonu sem villtist óvart í sjálfri sér heldur er hún saga konu sem átti sér stóra drauma. Hún elskaði heiminn, listina og allt sem er fallegt en með því að standa með sjálfri sér, sýna sinn kjarna og vera sú kona sem hún var varð hún útskúfuð frá samfélaginu, hún gerði aldrei neitt til að eiga það skilið heldur leyfði hún sér að vera áberandi og vissulega drekka óhóflega. Þetta er saga sem rífur úr mér hjartað. Heilt samfélag á móti einni konu án rökstuðnings, hún gerði aldrei neinum neitt. “Á hún þá aldrei að fá aðgang að heimi hinna? á henni þá alltaf að líða illa?”
Sá leikritið um Ástu áður en ég las bókina og fékk því ekki mikið nýtt út úr því að lesa bókina. Saga Ástu er hinsvegar áhugaverð og tókst leikritinu mun betur til en bókinni að koma henni til skila.
Ég sit hér og stari út í loftið eftir lestur þessa bókar með tárvot augu. Ásta hefði getað verið svo miklu meira ef að Bakkus hefði ekki tekið öll völd í lífi hennar. Hún kenndi öllum öðrum um það sem miður fór eins og svo oft með alkóhólista, það var aldrei neitt henni að kenna. Bókin er vel skrifuð og Friðrika Benónýsdóttir kemur efninu vel frá sér. Ég get ekki annað en gefið fimm stjörnur fyrir þessi skrif. Friðriku tókst að nema mig á brott í lestrinum og inn i söguna. Vel gert!
Átti erfitt með að slíta mig frá bókinni. Átakanleg saga og alkóhólismanum gerð góð skil. Var ekki viss hvort prósinnn höfðaði strekt til mín eða hvort þetta væri aðeins of kammó. Ef til vill var hann aðeins og talmálslegur. Eftir á að hyggja hefði ég verið til í meiri dýpt - lengri bók. Ásta fær enn tryggari sess sem rokkstjarna í mínum huga eftir lesturinn. Bara það að heyra að hún hafi verið í partýi í Barmahlíðinni góðu rétt áður en hún skrifaði sína þekktustu smásögu fékk mig til að ærast.
Svo fallega skrifuð bók með innskot af lífsatburðum Ástu þar sem sjónarhorn hennar er ríkjandi jafnt sem fólksins í kringum hana. Falleg, einlæg, sönn og umfram allt átakanleg saga sett saman á þann máta að ég gat ekki annað en lokað bókinni eftir síðustu setningu, lokað augunum og taka inn þessi skrif
Ég er eftir mig. Mest yfir þeim senum sem ég tengdi svo innilega við. Hvílíkt líf og hvílík kona. Það er eitthvað svo gottvont að lesa um vondar konur. En svo er bókin líka svo fallega samin og rituð!
Mun sennilega mæla með við öll sem ég ræði við á næstu mánuðum
Loksins las ég þessa og þótt að ég hafi kennt sögur Ástu í áratug þá fékk ég enn skýrari mynd af þessari merkilegu konu. Frásagnamátinn er svolítið sérstakur og verður þess valdandi að ég splæsi ekki í fjórar stjörnur. Ljúfsár saga mikillar listakonu sem verður fíkninni að bráð.