Komið er að tímamótum í lífi Halldóru Hallbjargar Orradóttur þegar farið er að líða á ævikvöldið. Hún þarf að segja skilið við lífið sem hún þekkir og flytjast á hjúkrunarheimili með lítið annað með sér en dularfullt umslag. Nýr kafli hefst í lífi hennar en um leið rígheldur fortíðin í hana. Myrk leyndarmál, sem hlekkjað hafa sál hennar alla tíð frá því hún var send í sveit sem ung stúlka, krefjast þess að líta dagsljósið áður en yfir lýkur.
Sálarhlekkir er einstaklega fögur og átakanleg skáldsaga sem fléttar fortíðinni saman við það sem virðist vera síðasti kaflinn í bók lífsins. Þetta er saga um sársauka, söknuð og sektarkennd en líka saga um ástina, uppgjör og endurlausn.
Steindór Ívarsson sló í gegn með bók sinni Þegar fennir í sporin sem kom út árið 2021. Hér snýr hann aftur með heillandi og spennandi örlagasögu sem mun hitta í mark hjá lesendum.
Þetta er kostulegt. Ég las Þegar fennir í sporin eftir sama höfund fyrr á árinu og fannst mikið til koma. Þannig hafði ég talsverðar væntingar til þessarar bókar, en sé svo að hún er skrifuð fyrir Storytel. Bók sem er samin til flutnings en ekki aflestrar hefur annan keim, það eru fleiri endurtekningar. Framan af bókinni var ég alveg að bilast yfir lélegum frágangi og endurtekningum en það kostulega er að hún skánaði með það þegar leið á.
Í bókinni er sagt frá tveimur tímaskeiðum, þegar Halldóra er 15 ára árið 1950 og þegar hún er komin á hjúkrunarheimili 2020. Káputextinn gefur aðeins upp þannig að ég skemmi ekki fyrir neinum þótt ég segi að hún var send í sveit til að vinna fyrir sér af því að foreldrarnir þurftu að koma bræðrum hennar til mennta. Þar varð hún fyrir skelfilegri lífsreynslu sem hún gat illa trúað neinum fyrir af því að hún vissi að henni yrði líklega ekki trúað. Margsögð saga. Í seinni hlutanum er hún loks að vinna úr atburðunum og ný tíðindi varpa ljósi á fortíðina. Það besta fannst mér samt að í fyrri hlutanum eru þau öll nafnlaus sem styrkir þann drunga sem einkennir þá frásögn en í seinni hlutanum heita allar sögupersónurnar nöfnum. Það var áhrifaríkt.
Ég gef aldrei stjörnur, skrifa bara umsagnir, og nú hefði það verið sérlega erfitt vegna þess að um miðja bók var ég farin að hugsa um að leggja hana frá mér. Sé ekki eftir að hafa klárað.
Ég var ekki hrifin og versnaði einkunn mín til muna eftir því sem á leið bókina.og vara við því að bókin fjallar um misnotkun og kynferðiaofbeldi og sjálfsvíg og er mjög triggerandi. Bókin og uppbygging hennar og persónur líkjast um of Minningaskríninu eftir Kathryn Huges (2021). Einnig fer ekki vel á því að karlmaður skrifi út frá hugarheimi konu og áberandi er að lýsingar á kynferðisofbeldi og misnotkun (sem höfundur kallr nauðgun eru) eru skrifaðar karlmannni. Höfundur rembist um of að nota sjaldnotuð orð og koma með sjaldnotaða málshætti - of tilgerðarlegt og passar illa. Lestur bókarinnar er frábær og eina ástæða þess að ég kláraði að hlusta á hana.
Elskaði þann hluta sem snýr að eldri Halldóru sem er að flytja á hjúkrunarheimili og samböndunum milli heimilisfólks og starfsfólks, minnkandi heilsu og sjálfstæði ásamt því að gera upp langa ævi og sambandinu við dætur hennar. Var minna hrifin af því að saga hinnar ungu Halldóru (og vissulega hinnar eldri líka að miklu leiti) snertust nær algjörlega um það ofbeldi sem hún varð fyrir.