Þórdís Helgadóttir's Blog
October 29, 2025
Framandi, lifandi fegurð – Lofsamlegur dómur Lestrarklefans um Lausaletur
Lestrarklefinn, sá öflugi grasrótarsprottni bókmennta- og menningarmiðill, rýnir í Lausaletur í dag og er umsögn Sjafnar Asare vægast sagt lofsamleg.
Höfundur hefur sérstakt lag á tungumálinu, hún skapar nýjar og frumlegar setningar og blandar þeim við gamlar. Hún vekur upp umhugsun og kallar fram fegurð með hárnákvæmlega staðsettum orðum, með eyðum sem þarf ekki að fylla í og stuttum köflum sem endurspegla hugrænt ástand persónanna. Þetta er bók sem þarf hundrað prósent að lesa oftar en einu sinni, og er ég viss um að meistaralega sköpuð fléttan nýtur sín betur í hvert skipti.
Ég er upp með mér, roðna jafnvel aðeins og þakka bara pent og innilega fyrir mig.
October 17, 2025
ÚTGÁFUDAGUR: LAUSALETUR
Regnið steypist yfir borgina og fáir eru á ferli. Það hefur ekki sést gestur á prentsafninu vikum saman. Björn og Írena drekka kaffi, endurraða í safnbúðinni og dytta að vélunum. Nágrannakötturinn kemur inn úr rigningunni, það er hápunktur dagsins. Þau spjalla og drekka kaffi, hundsa draugaganginn í prentvélunum og bæla niður langanir og eftirsjá, einsemd og ótta. Þessi heimsfaraldur er allt öðruvísi en sá síðasti. Írena hugsar um eiginkonuna sem sjúkdómurinn hrifsaði, Björn hefur á tilfinningunni að þetta hafi allt gerst áður. Nú kemur nágrannakötturinn inn úr rigningunni. Einhvers staðar þarna úti er óvæntur gestur á leiðinni, einmitt í dag, þegar borgin stendur á heljarþröm.
Lausaletur er magnþrungin skáldsaga um vinnuhjónaband, heimsendi og prentsögu.
Kápuna gerði Sofie Winding, verkið er eftir Dadu Shin. Ritstjóri var Guðrún Lára Pétursdóttir. Einnig voru ómissandi Typa prentsafnið í Tartu, bókin The Gutenberg Parenthesis eftir Jeff Jarvis, Eiríkur Kristjánsson og Kári Tulinius sem lásu yfir á ólíkum stigum, allt fólkið mitt; Dúnja og Svikaskáld og fjölmargir í viðbót. Una og Arnaldur, Skaði og Kaktus, þorpið og heimurinn.
July 25, 2025
Viðtal í Endastöðinni
Í gær birtist viðtal við mig í Endastöðinni á Rás 1. Ég talaði vítt og breitt við Unu Schram um bókmenntir, mín eigin verk og ekki síst ástríðuverkefnið mitt Stelk, sem er eina íslenska bókmenntatímaritið helgað smásögum.
Hlustaðu hér til að komast að því hvers vegna smásagan er hið fullkomna bókmenntaform, heyra mig lesa upp úr sögunni minni Hamur og tala um vistkerfi og heimsslitasögur eins og venjulega. BÓNUS: Hér er hulunni í fyrsta skipti svipt af nýrri skáldsögu sem væntanleg er með haustinu.
Ef þið hafið enn ekki tékkað á Stelk þá eigið þið gott í vændum. Við ritstjórarnir, ég og Kári Tulinius, vorum að senda frá okkur sjöunda tölublað og sarpurinn er hrein og klár gullkista af frumbirtum sögum eftir marga okkar bestu og áhugaverðustu höfunda, sem hvergi er að finna annars staðar. Stelk má lesa hér.
June 22, 2025
Ljóslínur
Hátíðarávarp Fjallkonunnar á Austurvelli, 17. júní 2025
Katrín Halldóra Sigurðardóttir flytur ávarpið í hlutverki FjallkonunarLjóslínur
Út
í birkiilm
eftir vetursetu
Ljósið í brjósti okkar
er júníbirta
Kitlið í maganum
kemur frá jörðinni
Hún er parísarhjól
og við, í augnablikinu,
í augnhæð við fjöllin
Upp
og út
*
Kitlið í maganum
af því að hjörtu okkar eru ungviði
og sérhver hátíð er hátíð barnanna
Jibbí – ég meina það – jey!
Upp
í brekkur og út á torg
Við blöndum geði
í nýjum hlutföllum
Bara í sumar! Nýtt!
Blöndumst
við uppáhalds og óþolandi
annað fólk
Við
öll
*
Skóflum rjómabólstrum
úr blámanum
bítum í vöffluhjarta með sultu
Það vex rabarbari í bakgarðinum – hann er vonin
Fyrstur upp á vorin
þegar nágranninn gefur okkur hnaus
Vonin er viðleitni
Von
er vinna
*
Þetta man fjallakelling
meðan allt liggur í dvala
Rótföst í hraunbreiðu
trú hennar
á okkur
Stolt, jú
af stórvirkjum
en mest af mildi
og mennsku
Þannig eru mömmur
Sérsvið þeirra
skjöldur og skjól
*
Hún man okkur máttvana
og mjúkhöfða
Hjálparlófi um litla hönd
meðan heilt þorp hélt undir
Gerði brjóst okkar þannig úr garði
að það rúmar
sólarhringssól
og sorgir heimsins
ef við leggjum þau
saman
Allar mömmur
eiga
öll börn
*
Út
Bröltum berfætt í móa,
vöðum læki, berjablá
Á sólstöðum
sigrar ekkert ljósið
Nóttin breiðir bleikt þel úr birtu
yfir brúnjörð og mójörð
og margvísa landsins mold
Við erum börn þegar við sofum
með mosa á milli tánna
Hjörtun ung og varnarlaus
opin
fyrir ljósi
February 27, 2025
ARMELÓ tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Og ég er bara ógurlega stolt og glöð og þakklát með þetta allt saman.
Dómnefndin segir meðal annars:
Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíkum sjónarhornum mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.
February 26, 2025
ARMELO out in Danish

A Danish translation of Armelo by Nanna Kalkar was published by Turbine in Denmark on February 14, 2025.
Check it out HERE.
May 20, 2024
Ævintýri
Það er einhver æð í bókmenntum þessa dagana – kannski fyrst og fremst angló bókmenntum, en mér finnst ég líka merkja eitthvað svipað hjá suður-amerískum höfundum – sem gengur út á að taka sígild ævintýri og vinna með þau á nýjan hátt.
Fyrsta svona bókin sem ég man eftir að hafa séð er Wicked eftir Gregory Macguire frá 1995, sem varð síðar að geysivinsælum Broadway-söngleik. Mér áskotnaðist bókin einhvern tíma um aldamótin og las helminginn en hún náði mér ekki, þótt premisan heillaði mig: Galdrakarlinn frá Oz, sagður frá sjónarhóli vondu vestannornarinnar.
Síðan hef ég ekki tölu á hvað ég hef séð margt með svipaðri premisu, bækur en líka sjónvarpsþætti og myndir – Disney-myndirnar Maleficent (2014) og Cruella (2021) sýna okkur t.d. sjónarhorn illmennanna úr Þyrnirós og 101 dalmatíuhundi.
Á sama tíma hafa streymt fram bækur sem segja grískar goðsögur frá nýjum sjónarhóli. Söngur Akkilesar og Circe eftir Madeleine Miller fremstar í flokki. Á árunum 2005 til 2013 (og kannski lengur) gaf Canongate út metnaðarfulla ritröð undir heitinu Myths, þar sem þekktir höfundar unnu með goðsagnir úr ýmsum áttum. Ein af fyrstu bókunum í þeirri röð var Penelópukviða eftir Margaret Atwood sem kann að hafa hrundið þessu æði af stað.
En kannski er þetta líka eitthvað einkennandi fyrir okkar tíma, þessi endalausa úrvinnsla og endursögn. Kannski tengist þetta öllum franchise kvikmynda-heimunum, þar sem allt snýst ennþá um áratuga gamlar ofurhetjur. En kannski ekki.
Ég er ekki bókmenntafræðingur og engan veginn nógu vel að mér til að greina þróunina almennilega. Þetta eru bara sundurlausar hugsanir um þráð sem mér finnst áhugaverður.
Angela Carter er líklega frumkvöðullinn í þessari bókmenntagrein. Hennar sögur komu út á áttunda og níunda áratugnum. Margaret Atwood hefur sömuleiðis unnið með ævintýri í smásögum og gjarnan sett á þau einhvers konar femínískt spin. Ég er án efa að horfa fram hjá alls konar fantasíuhöfundum líka, enda er ég helst að hugsa um commercial mainstream og fagurbókmenntir.
Og þar virðist þessi bylgja vera í gangi svona um það bil síðustu tíu til fimmtán árin. Og þar er líka eitthvað annað og áhugaverðara í gangi en bara einfaldur femínískur viðsnúningur á gömlu sögunum. Einhver flóknari úrvinnsla. Meira meta, það er meiri húmor í gangi, meiri meðvitund um formið, samruni ævintýraminna við samtímasögur er frumlegri og galsafyllri.
Með því fyrsta sem ég las í þessum dúr var smásagan The Husband Stitch eftir Carmen Maria Machado sem kýldi mig kalda þegar ég las hana á netinu svo ég fór beint og pantaði smásagnasafnið Her Body and Other Parties.
Í kjölfarið las ég síðan smásagnasöfn Karen Russell og Kelly Link, sem mér sýnast hafa náð einhvers konar hápunkti í þessari bókmenntagrein.
Happily eftir Sabrinu Orah Mark, upphaflega pistlaröð í Paris Review, sem ég var orðin vön að bíða í eftirvæntingu, tekur örlítið annan vinkil og blandar ævintýrum við óskáldað í esseyjum sem eru ýmist persónulegar, pólitískar eða hvort tveggja, á stórfenglega heillandi hátt.
Eftir einhverjum leiðum fann ég síðan Helen Oyeyemi, breskan höfund af nígerískum uppruna, búsett í Prag, sem fer á einhvern alveg nýjan, skrítinn, dularfullan og dálítið erfiðan stað með þessa blöndu ævintýra og raunsæis. Hún er kannski einna torræðasti en líka mest spennandi höfundurinn í þessum hópi – að minnsta kosti þeim sem ég hef þegar kynnst, því ég efast ekki um að ég eigi eftir að finna ýmsa fleiri þegar ég þræði mig lengra eftir þessum brauðmolastíg.
Einhverra hluta vegna eru þessir höfundar yfirleitt að vinna með smásöguna (ævintýri eru auðvitað smásögur í grunninn) og yfirleitt konur.
Ég er með dálítið blendnar tilfinningar gagnvart þessari bókmenntagrein, eða æð. Þetta er eins og stígur sem auðvelt er að villast út af, auðvelt fyrir höfunda að detta í sjálfumgleði eða flatneskju og yfirborðsheit. Hvað ef – vonda nornin var bara misskilin! Það er það sem Siggi Páls hefði kallað jógúrt í ljóðlist. Sniðug hugmynd í eitt skipti en svo er hún bara búin. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég hef aldrei farið alla leið inn í að skrifa svona sögur þótt mig langi til og hafi daðrað við það.
December 3, 2021
Tanntaka tilnefnd til fjöruverðlaunanna og olía til íslensku bókmenntaverðlaunanna
November 26, 2021
Hugvíkkandi og fersk
„Tónninn í Tanntöku er ferskur, nýstárlegur og uppfullur af hugvíkkandi myndum og líkingum. “ – RSS Lestrarklefanum
Mikið sem ég er meyr og þakklát fyrir þennan fallega dóm um Tanntöku sem birtist í Lestrarklefanum á dögunum.
https://lestrarklefinn.is/2021/11/16/nutimalegur-og-nystarlegur-tonn/October 21, 2021
GOÐAFRÆÐI HVERSDAGSINS
Kraftmikið og marglaga verk sem skapar ljóðrænu úr óvæntum áttum og ljáir hversdagslegum athöfnum dulrænt goðmagn. – ÞSH Fréttablaðinu
Ákaflega fallegur dómur um Tanntöku í Fréttablaði dagsins. Ég þakka fyrir mig.
https://www.frettabladid.is/lifid/goafri-hversdagsins/


