Ljóslínur
Hátíðarávarp Fjallkonunnar á Austurvelli, 17. júní 2025

Ljóslínur
Út
í birkiilm
eftir vetursetu
Ljósið í brjósti okkar
er júníbirta
Kitlið í maganum
kemur frá jörðinni
Hún er parísarhjól
og við, í augnablikinu,
í augnhæð við fjöllin
Upp
og út
*
Kitlið í maganum
af því að hjörtu okkar eru ungviði
og sérhver hátíð er hátíð barnanna
Jibbí – ég meina það – jey!
Upp
í brekkur og út á torg
Við blöndum geði
í nýjum hlutföllum
Bara í sumar! Nýtt!
Blöndumst
við uppáhalds og óþolandi
annað fólk
Við
öll
*
Skóflum rjómabólstrum
úr blámanum
bítum í vöffluhjarta með sultu
Það vex rabarbari í bakgarðinum – hann er vonin
Fyrstur upp á vorin
þegar nágranninn gefur okkur hnaus
Vonin er viðleitni
Von
er vinna
*
Þetta man fjallakelling
meðan allt liggur í dvala
Rótföst í hraunbreiðu
trú hennar
á okkur
Stolt, jú
af stórvirkjum
en mest af mildi
og mennsku
Þannig eru mömmur
Sérsvið þeirra
skjöldur og skjól
*
Hún man okkur máttvana
og mjúkhöfða
Hjálparlófi um litla hönd
meðan heilt þorp hélt undir
Gerði brjóst okkar þannig úr garði
að það rúmar
sólarhringssól
og sorgir heimsins
ef við leggjum þau
saman
Allar mömmur
eiga
öll börn
*
Út
Bröltum berfætt í móa,
vöðum læki, berjablá
Á sólstöðum
sigrar ekkert ljósið
Nóttin breiðir bleikt þel úr birtu
yfir brúnjörð og mójörð
og margvísa landsins mold
Við erum börn þegar við sofum
með mosa á milli tánna
Hjörtun ung og varnarlaus
opin
fyrir ljósi