Einar Már Guðmundsson's Blog
October 26, 2008
Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo
Ég las eitt sinn úr verkum mínum í Englandi. Að upplestri loknum reis kona úr sæti sínu og sagði: "You seem to have a very English sense of humor." Konan var að hrósa mér. Þegar Englendingar tala um enskt skopskyn meina þeir gott skopskyn. Samt sýnir þetta hrokann, hvernig hann er vaxinn inn í tungmálið, þegar hin fornu stórveldi telja jafnvel kímnigáfuna séreign sína.
Í annað sinn las ég upp fyrir Zulu menn í borginni Durban í Suður-Afríku. Ég las upp á ensku og allt var um leið þýtt yfir tungumál þeirra. Zulu mennirnir hlógu að öllu sem ég sagði, hvort sem þeim þótti ég svona spaugilegur eða fyndinn, en enginn þeirra sagði: "You seem to have a very Zulu sense of humor."
Við búum á hnetti. Hann er einsog kúla í laginu. Þess vegna er engin miðja. Miðjan er undir iljum sérhvers jarðarbúa. Því segi ég: Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Ef þessari eðlilegu landafræði væri fylgt byggjum við í betri heimi og þá væru voldugar og vanmáttugar þjóðir ekki til. Þá væri engin ástæða til að ráðast inn í lönd og slá eign sinni á olíulindir og önnur náttúrugæði.
...
Um daginn sá ég heimildarmynd um Almeria-svæðið á Suður Spáni. Þar er framleiddur þriðjungur af vetrarneyslu Evrópubúa á grænmeti og ávöxtum. Í endalausri þyrpingu gróðurhúsa vinna 80.000 innflytjendur í andrúmslofti sem búið er að eyðileggja með skordýraeitri. Innflytendurnir eru á skítakaupi og eru margir orðnir vitskerrtir út af aðbúnaðinum. Þetta er ekkert annað en þrælahald þó það heiti eitthvað annað. Þetta er ein skýringin á því hvernig hægt er að halda matvælaverði niðri í Evrópu og sá kraumandi pottur sem margir Íslendingar vilja svo ólmir komast í og bera einmitt fyrir sig þessu, matvælaverðinu.
En ég segi: Byrjum að taka til heima hjá okkur. Lækkum raforkuverð til gróðurhúsabænda og virkjum líka orkuna sem í okkur býr. Hugsum um gæðin, ekki bara magnið. Notum orkuna til að bæta hag heimilanna í stað þess að gefa hana sléttgreiddum fulltrúum peningavaldsins. Tökum til. Við getum ekki gefið það af okkur sem við höfum ekki öðlast sjálf.
Það var nefnilega ekki síður fróðlegt að heyra eigendur búgarðanna réttlæta athafnir sínar. Jú, sögðu þeir, þeir voru í samkeppni á markaði og kepptu við markaði þar sem enn meira þrælahald tíðkaðist, í Mið-Ameríku og Afríku. Þetta eru nákvæmlega sömu röksemdirnar og fulltrúar íslenska kvótakerfisins nota þegar heilu byggðalögin eru skilin eftir tómhent.
Eða einsog segir í ljóðinu: Hinn frjálsi maður er ekki lengur veginn með vopnum, ekki höggvinn í herðar niður eða brenndur á báli. Þess í stað er honum svipt burt með snytrilegri reglugerð og málinu skotið til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk.
...
Fólk er að drukkna í hugfræðihugtökum sem allir nota en enginn skilur. Samanber allar fjárfestingarnar. Einn kaupir annan og annar kaupir hinn, og þeir heita jafn fjölskrúðugum nöfnum og jólasveinarnir.
Einhver græðir glás af seðlum og allir eru svaka ríkir á meðan ellilífeyrisþegarnir hnipra sig í kompum, fólk gengur heimilislaust um götur og lægstu laun eru svo lág að enginn trúir að nokkur sé á þeim. Jafnvel jafnaðarmenn yppta öxlum þegar þeir heyra verkalýðinn nefndan á nafn. Hann hafa þeir ekki séð í mörg ár.
Hér eitthvað sem rímar ekki. Eða réttara sagt: Þetta er heilmikil hagfræði. Á meðan er heiminum huggulega deilt upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með vestrænum Bushlimum gegn múslimum sem vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar.
Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en sjálft er stríðið háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig fólkið sem þjáist undan þessu öllu á að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna.
Málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið, sópar göturnar, afgreiðir í búðinni og þjónar til borðs á veitingahúsinu. Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?
Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á fjárfestana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?
...
Æðsta viðurkenning sem skáldum og vísindamönnum hlotnast eru Nóbelsverðlaunin. Þau eru sjötíu milljónir og eru vanalega veitt fyrir einstakt ævistarf, enda verðlaunahafarnir oftar en ekki gamlir menn og hoknir. Öflugustu fjárfestarnir hala inn fimm- til sex Nóbelsverðlaun á ári, sé þetta mælt í peningum, lífeyrissjóðir leika matador og með hugarflugi, sem enginn skilur, margfaldast eignir manna. Ef þeir hætta í vinnunni hverfa þeir á braut með fjárlögin.
Nú eru kjarasamningar lausir og auðvitað fer allt á annan endann ef lægstu laun hækka um fimm þúsund krónur. Ef ég væri verkalýðsforingi myndi ég spyrja: Búa fátækrahverfin innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Hvað verður um umhyggjuna í öllu ríkidæminu?
Fátækt er heldur ekki endilega rétta orðið yfir ellilífeyrisþegana í kompunum, útigangskonurnar með sprittið og allt félagslega botnfallið. Eymd er betra orð og þessi eymd er allra, ekki bara þeirra sem fyrir henni verða. Hún er fátækrahverfið innra með okkur.
...
Fyrir rúmri viku var dagur íslenskrar tungu. Það getur enginn haft neitt á móti því, þó það sé skrýtið að henni sé aðeins helgaður einn dagur. Samt er það ekkert skrýtið þegar varaformaður næst stærsta stjórnmálaflokksins telur að best sé að við tölum ensku og íslensku til skiptis.
Annar stjórnmálamaður berst fyrir því að áfengi sé selt í matvörubúðum. Gott á hann. Ímyndum okkur að áfengi væri bannað en hass væri löglegt og hass selt í ríkinu. Þá myndi Sigurður Kári vera að berjast fyrir því að hass væri selt í grænmetisdeildum búðanna. Gott á hann. Alla vega væri röksemdafærslan sú sama.
Mér er svo sem sama hvar Sigurður Kári kaupir sitt bús og mín vegna má Ágúst Ólafur tala ensku á fundum Samfylkingarinnar. Þar er hvort eð töluð einhver evrópska. Orðið verkalýður heyrist ekki lengur og ef einhver notar orðin auðvald eða arðrán líður yfir hálfan flokkinn.
Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessum málum, hvorki áfengiskaupum Sigurðar Kára né tungutaki Ágústs Ólafs. Mín vegna mega þeir taka tappa úr flösku og tala saman á ensku.
Það sem ég er að velta fyrir mér eru hinar sígildu setningar Arthurs Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Getur verið að orðin, verkfærin sem við notum til að tjá okkur, ráði í raun hvað við segjum? Erum við hugsuð fremur en að við hugsum? Áður fyrr byggðist vald manna ekki síst á því leiknir þeir voru með orðin. Hinn menntaði maður hafði orðin á valdi sínu. Stjórnmálamenn voru ræðuskörungar, ferskeytlan hvöss sem byssustingur og þar fram eftir götum.
Nú á dögum segjum við ekki um stjórnmálamanninn: "Hann er flugmælskur." Þess í stað segjum við: "Hann kemur vel fyrir í sjónvarpi."
Hvernig hefði Egill Skallagrímsson komið fyrir í sjónvarpi? Hvernig væri hægt að markaðssetja hann? Væru ljóð hans vinsæl? Hér á árum áður lásu stjórnmálamenn Íslendingasögurnar og héldu síðan glaðbeittir út í kosningabaráttuna. Nú fara þeir aftur á móti í litgreiningu og mæta fyrir framan upptökuvélarnar einsog tískan býður.
Geta þeir ekki sagt einsog Arthur Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Því endurtek ég bara upphafsorð mín: Þú sem býrð með eyju í hjartanu og víðáttur geimsins stétt undir iljunum: Réttu mér norðurljósin! Ég ætla að dansa við unglinginn sem heldur á stjörnunum. V ið roðflettum myrkrið og afhausum eymdina.
Og verði ég sendur til útlanda að semja við skrifstofubáknið mun ég segja á íslensku: Því miður, herra framkvæmdastjóri, ég hef ekkert að bjóða í þessum samningaviðræðum nema þrjú tonn af kokteilsósu, örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu og allar hljómplötur Árna Johnsens.
...
Nú vil ég biðja þá sem í óskammfeilni sinni gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvermber árið 1932 að vera svo vingjarnlega að snúa við og ganga hann upp.
Þessar setningar komu til mín hér um árið þegar fjölmiðlamenn vildu í óða önn gerast skriftarfeður fyrir aflóga sósíalista. Þeir áttu ekki bara að fagna hruni úreltra þjóðfélgaskerfa heldur í raun að játa að öll réttindabarátta almennings, verkalýðsbaráttan, hafi verið misskilningur. Ef þeir biðu afsökunar á axarsköftum fortíðarinnar yrði litið á mál þeirra mildari augum af lögregluyfirvöldum frjálshyggjunnar.
Þetta gekk svo nærri mönnum að meira að segja hinum galvaska leiðtoga vinstra manna Steingrími J. vafðist tunga tönn í síðustu kosningabaráttu þegar hann var spurður að hvort hann væri sósíalisti. Búið er að hlaða slíkri neikvæðni á orðið, þó það þýði í raun bara jafnaðarmaður.
Frjálshyggjan, sem nú herjar á velferðarkerfið, vann því ekki aðeins kalda stríðið, hún vann einnig stríðið um tungumálið. Lengi vel hefur enginn opnað svo kjaftinn í sjónvarpinu að hann segi ekki: "Ég held að samkeppni sé af hinu góða," og það má eflaust til sanns vegar færa, en er ekki líka samvinna af hinu góða og samhjálp? Hvernig hefði Jesús litið á málin?
Nú er ég ekki á móti einkarekstri, - á mörgum sviðum er eina vitið - en af hverju verður allt vitlaust þegar fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður barnafjölskyldum upp á jólahlaðborð á viðráðanlegu verði? Eftirlit með tannhirðu barna er tekið úr skólum, og tannheilsa þeirra hrynur á nokkrum árum, allt af því að einhverjir segja að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í hinu og þessu.
Það er sagt að Bandaríkin hafi aldrei borið sitt barr eftir einkavæðingu Regantímabilsins. Heilbrigðiskerfið var hreinlega lagt í rúst, geðsjúkum var vísað út á götur og meðferðarstofnunum lokað. Þetta ætti að kenna okkur að standa vörð um meðferðarúrræðin sem hér finnast. Það getur verið dýrt að spara á þeim sviðum. Oft er betra að spyrja sig hvað kostar að gera hlutina ekki.
Nú eru kjarasamningar í aðsigi, og lægstu laun eru svo lág að þau duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum, en þjóðfélagið virðist yppta öxlum, og hugsa svipað og drottningin þegar fólkið mótmælti forðum, og karfðist brauðs, en þá sagði drottningin: Fyrst fólkið á ekki brauð, af hverju borðar það ekki kökur?
Þetta leiðir hugann að undarlegum myndum sem skaut upp í fréttatíma sjónvarpsins fyrir rúmum áratug. Þá voru l angferðabílstjórar í verkfalli og stóðu fyrir framan rútubíla með úðunarbrúsa og úðuðu á rúður þeirra og hleyptu vindi úr dekkjum þeirra. Í blálýstum stofum landsmanna birtust langferðabílstjórararnir sem pörupiltar og götustrákar, en talsmenn vinnuveitenda böðuðu sig í samúð myndavélanna.
Ég man að unglingar víðs vegar um landið héldu að verið væri að sýna úr nýrri kvikmynd. Í þeirra augum var þetta ekki veruleiki fyrr en fulltrúar vinnuveitenda birtust á skjánum. Þá rifjaðist upp fyrir mér að á mínum unglingsárum geisuðu oft harðar vinnudeilur.
Síðan hefur verkalýðshreyfingin orðið stærsti sumarbústaðaeigandi landsins, með lífeyrissjóði sem spila bingó og kaupa vonlaus fótboltalið, enda halda sumir unglingar að Alþýðusamband Íslands sé ferðaskrifstofa. Ekki skal ég skal ekki tjá mig um stöðu kjaramála, en útkoman er þjóðarsátt full af sumarbústöðum og lífeyrissjóðir sem fjármagna matador auðmanna á meðan einstaka hópar berjast einir í kuldanum, einsog langferðabílstjórarnir forðum, eða berjast bara ekki neitt.
Og það sem verra er: Öllum er sama, því ekki er lengur nein samstaða, þar sem öllum er ætlað að keppa, og því segi ég: Hvort sem sagan er línurit eða súlurit í auga hagfræðingsins á skjánum er heimurinn kartafla í lófa guðs. Eða einsog amma mín sagði: Fólk verður leiðinlegt ef það trúir ekki á neitt skemmtilegt. Þess vegna kýs ég að trúa á samstöðuna, hvar sem hún finnst, og segi við þá sem gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvember árið 1932, verið stolt af því.
...
Vinur minn, sem býr suður með sjó sagði við mig þegar ég heimsótti hann í fyrra: Eitt sinn voru þrjúhundruð bátar við höfnina en þrír að vinna í bankanum. Nú eru þrír bátar við höfnina en þrjúhundruð að vinna í bankanum.
Annar vinur minn og jafnaldri, fæddur vestur við Breiðafjörð, segir svo frá að strax þá um vorið hafi fyrsta lambið hans fæðst. Það tíðkaðist í sveitinni að börn fengu lamb á hverju vori.
Það átti að vera trygging fyrir framtíðina, sem sé, að þegar börnin væru komin á legg hefðu þau eitthvað fé milli handanna. Amma þessa vinar míns sá til þess á hverju hausti að leggja andvirði hvers lambs sem slátrað var inn á bankabók í kaupstaðnum.
Amma hans sagði að þegar hann yrði stór gæti hann keypt sér íbúð eða bíl fyrir peningana. "Auðvitað trúði ég ömmu minni," segir vinur minn, "hver gerir það ekki? Ekki ljúga ömmur."
Svo liðu árin. Alltaf bættust ný ærgildi inn á bankabókina. Það kom að því að vinur minn flutti til borgarinnar og tók bílpróf. Hann hélt rakleitt í bankann og ætlaði að taka peningana út úr bankabókinni og kaupa sér bíl.
Það urðu heldur betur vonbrigði þegar hann komst að því að lítið sem ekkert var inni á bankabókinni. Öll lömbin sem samkvæmt hagspekinni hefðu átt að ávaxta sig voru andvirði tveggja lambalæra úr frystikistu kjörbúðarinnar í hverfinu.
Þetta var skrýtið, því ekki ljúga ömmur, en það gera bankastjórar ekki heldur. Þegar vinur minn spurði bankastjórann hvað hefði orðið um lömbin hans sagði bankastjórinn að verðbólguúlfurinn hefði étið þau. Þá sakaði hann bankann um sauðaþjófnað og fór fram á að þeir skiluðu lömbunum en var fyrir vikið sakaður um dónaskap og hent út.
Þessi vinur minn dró þann lærdóm af þessum óförum sínum að skipta ekki frekar við banka, og hefur hann að mestu leyti staðið við það. Hvað mönnum finnst um það skiptir ekki máli.
En spurningin er hvort hér sé ekki hagkerfi okkar í hnotskurn og það sé nákvæmlega þetta sem er að gerast á hinum svokölluðu fjálmálamörkuðum. Sparifé fólks og fjárfestingar gufa upp og verða að engu, lömbunum hefur fækkað í stað þess að fjölga, en við sem höfum setið heima og skiljum hvorki úrvalsvísitöluna né kvótakerfið hljótum að spyrja, í hvaða formi endurtekur þessi saga sig næst?
Kannski segjum við bara einsog Megas: Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna frímerkjum.
...
Þegar ég fór að hugsa um þennan pistil minn í upphafi vikunnar sá ég af gefnu tilefni fyrir mér heilu hnífasettin í bökum framsóknarmanna, en nú gengur Framsóknarflokkurinn undir nafninu fatahreyfingin, og vita ekki hvort þeir eiga að halda sig á vesturbakka eða austurbakka stjórnmálanna, en hafa samt hafnað á tjarnarbakkanum.
En einmitt þennan sama dag og ég fór að hugsa þetta þá hrundi borgarstjórnin og ég sat eiginlega uppi með Sjálfstæðisflokkinn og einherjana í Valhöll, í senn þvoglumælta og baráttuglaða, en þeim hafði einmitt tekist að véla til sín umhverfisvænan lækni, Ólaf F. Magnússon, sem eitt sinn bjargaði lífi vinar míns og mér er því ákaflega hlýtt til. Það gerði hann með skjótum og fumlausum höndum læknisins og hefur ávallt borið með sér þokka manngæskunnar, og eflaust fatað sig án hjálpar.
En þegar kvölda tók stóðu þeir þarna hinir nýju ráðamenn, fölir og gráir, einsog stjórnmálamenn úr ráðstjórnarríkjunum gömlu, já nánast einsog Jaruselsi þegar hann var nýbúinn að setja herlögin í Póllandi eða kommúnistarnir þegar þeir ætluðu að eiga sitt Comeback í andaslitrum Sovétríkjanna, og var afar viðeigandi að þetta væri á Kjarvalsstöðum því athöfnin eða krýningin var einsog mynd á sýningu, eða leikþáttur, saga sögð af bjána, full af mögli og muldri, og merkir ekki neitt, svo gripið sé til Shakespears.
En nú er ég bara að tala um útlit og fas, ég er að rýna í myndina, jakkafötin sem þeir eflaust hafa greitt úr eigin vasa, gagnstætt framsóknarmönnum sem hafa einfaldan smekk og velja aðeins það besta, enda nýkomnir á mölina til að að sanna svo rækilega að þar eigi þeir heima, líklega með greiðslukort S-hópsins í vasanum, en á þeim bæ munar menn lítið um nítján pör af sokkum eftir að hafa fengið heilan banka í þjórfé og látið Elton John syngja sín alfegurstu lög.
Þetta var á Kjarvalsstöðum, Kjarklambrastaðatúni, einsog Megas kallaði það, en þar las Matthías skáld eitt sinn ljóð sín, og þá voru kommarnir illkvittnir og kölluðu hann Exile on Main Street, en nú eru aðrir tímar og ljóðin láta vel í eyrum allra og kommarnir bugta sig og beygja fyrir Matthíasi og ljóðum hans.
Og kannski hafa þau svifið einsog ský yfir höfðum borgarstjórnarhópsins, sem greinilega hafði skilið hnífasettin eftir heima, og fallist í faðma við lækninn, sem nú gaf þeim resept upp á framtíðina, en ég hef varla sleppt þessu orði, resept upp á framtíðina, þegar hún er orðin ótrygg, í spennitreyju, einsog ávallt í gömlu Ráðstjórnarríkjunum, sem frjálshyggjumennirnir virðast elska í laumi, í samræmi við þá kenningu að harmleikurinn endurtekur sig sem skrípamynd. Því héldu forsöngvararnir tveir varla lagi á meðan undirleikarnir stóðu fyrir aftan þá einsog hnípin þjóð í vanda. Um þetta vitnðu ljósmyndir strax daginn eftir.
Á meðan þessu öllu fór fram mátuðu framsóknarmenn sín keisaraklæði í Norræna húsinu, og hvergi sáust hnífar og frú Makbeð ekki tiltæk, hvað þá marktæk eða róttæk, frekar en þessi kyndugi flokkur sem fyrir löngu er búinn að gleyma erindi sínu í allri jakkafatavæðingu frjálshyggjunnar. Hann er fyrir löngu búinn að kokgleypa allt sem hann á ekki að gera, steingleyma öllu er varðar jafnvægi í byggðum, tengsl manns og náttúru, enda arkítekt þess kvótakerfis sem leikið hefur byggðir landsins grátt, og því mun þessi flokkur, Framsóknarflokkurinn, aldrei komast úr sporunum fyrr en hann hefur tekið til í rústum fortíðarinnar, gert upp við kvótakóngana, kauphallarbraskarana og S-hópana.
Væri til dæmis hægt að fara fram á afturvirka eignaupptöku og skila ránsfengnum? Væri það hugmynd? Með öðrum orðum, fara úr jakkafötunum og í vinnuskyrturnar, setjast upp á trakorana, taka fram handfærin og leggja frá sér hnífasettin og illkvittnina og stærilætið sem hreiðrað hafa um sig í spegilhöllum hégómans.
...
Markaðurinn á að vera frjáls, en ekki fólkið. Það er boðorð dagsins. Það þarf meiri peninga fyrir þá sem eiga nóg af þeim. Einhver fékk þrjúhundruð milljónir fyrir að byrja í vinnunni. Kannski ættu bankastjórarnir að semja fyrir láglaunafólkið sem er tíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun þeirra. Þeir gætu fengið árangurstengda þóknun svo eitthvað sé í boði.
Ef ríkisstjórnin væri bolti myndi ég sparka henni út af. Vandinn er bara sá að þá fengi hún horn og skoraði glæsilegt mark því stjórnarandstaðan er svo léleg í vörn. Þannig er staðan: Gamlingjar lokaðir inni vegna elliglapa en unglingar á lyfjum vegna æskufjörs. Elvis er enn í hernum og vinir mínir, stjórnleysingjarnir, hafa skráð sig í lögregluskólann. Meira að segja Bob Dylan er búinn að gleyma öllu sem hann sagði en hann sagði það samt og þar við situr hvað sem hann segir.
Já félagar, látið dæluna ganga, það vantar ekki bara ljóðlist í lífið, heldur líf í ljóðið, enda hefur ekkert frést af Johnny Rotten síðan hann opnaði fasteignasölu í Los Angeles. Við sendum okkar bestu kveðjur héðan úr hagvextinum og vonum bara að húsnæðismarkaður hugans sé ekki síðri þar en hér, og þú í góðum málum enn á móti hræsni, enn á móti lýðræði, enn á móti skrifræði og öllu sem endar á i.
...
Það reynist mörgum erfitt að viðurkenna hverjir þeir eru og fyrir hvað þeir standa. Engum geðjast að þeirri tilhugsun að vera álitinn óréttlátur og svikull, jafnvel lyginn, og öllum finnst leitt þegar hugsjónir þeirra hrynja til grunna einsog spilaborg. Samt er þetta oft niðurstaðan af athöfnum okkar og ekkert skrýtið að við þrætum fyrir hana og reynum að sanna með alls kyns undanbrögðum að hún sé röng. Þá segjum við að þetta sé allt öðrum að kenna, að þeir hafi átt þátt í klúðrinu og séu ekkert skárri en við, jafnvel verri. Við höfum borið niðurstöður okkar undir lögmenn, fyrrverandi lögmenn og jafnvel mætt á miðilsfund með framliðnum lögmönnum, en allt kemur fyrir ekki þegar keisarinn er að lokum flæktur í eigin lygavef og stund sannleikans rennur upp.
...
Í Sovétríkjunum var marxisminn hluti af valdakerfinu, einhvers konar þjóðfélagsleg ríkistrú, og slík kredda að hann var settur upp í orðabók þar sem fyrirbæri mannlífsins voru skilgreind í stafrófsröð. Þetta átti auðvitað ekkert skylt við marxisma eða blómaskeið hans um og upp úr 1968. Á þeim tíma var gefið út álíka mikið af bókum um marxisma og nú á dögum er gefið út um matreiðslu og megrun. Heilar deildir hjá bókaforlögum sérhæfðu sig í útgáfu slíkra rita, enda var haft eftir Willy Brandt, að sá sem ekki sé marxisti um tvítugt hafi ekkert hjarta, en sá sem sé það enn eftir fertugt hafi engan heila.
Áhrif marxismans voru gífurleg, á hugvísindi, bókmenntir, kvennabaráttu, já á allt nema verkalýðinn sem ætlað var að breyta heiminum. Sá marxismi sem breiddist út um Vesturlönd var Sovétmönnum engan veginn að skapi. Þvert á móti vildu þeir friðsamlega sambúð og hana vildu hægrisinnaðir frjálshyggjumenn líka. Þeir gáfu andstöðuöflunum engan gaum. Það gerðu frekar litlir hópar til vinstri, stjórnleysingjar af ýmsu tagi. Þessir hópar upplýstu fólk um andstöðuna, skrifuðu greinar, héldu fundi og gáfu út bæklinga. En fáir mættu á fundina og salan á bæklingunum var jafn treg og hjá Jóhannesi Birkiland forðum.
Þessir hópar voru í tenglsum við háskólaprófessora sem gerðir höfðu verið að götusópurum, verkalýðsleiðtoga sem unnu við gluggaþvott og landflótta baráttumenn; en það var talað fyrir daufum eyrum. Það var ekki fyrr en múrarnir hrundu að allir vildu Lilju kveðið hafa. Þegar efnt var til sigurhátíða eftir fall alræðisins stóðu baráttumennirnir oft einsog illa gerðir hlutir á meðan salirnir fylltust af ungum markaðshyggjumönnum sem skáluðu, líklega hver fyrir örðum, enda rann upp sú efnishyggja nútímans sem nánast er lögboðin sjálfselska, þar sem græðgin er göfug og heitir flottum nöfnum, en það er einmitt hún sem nú er að fara yfir öll sín strik.
Vefurum fjármála hefur vissulega tekist að blekkja keisarann, en ekki börnin og þannig verður það alltaf, því ekkert varir að eilífu, enginn stóri sannleikur, enginn múr. Öðru hverju eru jafnvel asnar klyfjaðir gulli gerðir afturreka, og má það heita von, ljós í myrkri, stund sannleikans, tákn þess að tímarnir breytast.
...
Við höfum öll verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Svona hefur lífsspeki okkar samfélags hljómað undanfarin ár. Það hefur jafnvel verið rætt um að finna öfundargenið, og þá helst í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem tilraunin hófst, og fólk lagði sparifé sitt en svo var allt lok lok og læs og spariféð horfið, en genið ófundið, en sjálfsagt hafa Danir plantað því, jafn illkvittnir og þeir eru í garð bankanna.
Þessu höfum við trúað á meðan eignir hafa verið færðar frá almenningi til fjármálamanna, bankar seldir á spottprís og yfirmenn skammtað hver öðrum kaupauka fyrir eitthvað sem enginn skilur. Nú þegar syrtir í álinn á almenningur að hlaupa undir bagga og taka við tapinu. Ef þeir fengu kaupauka þegar allt var í plús eiga þeir þá ekki að skila honum þegar allt er í mínus?
Uppi eru kenningar um að bankarnir hafi hagnast á falli krónunnar, að þeir hafi keypt gjaldeyri, væntanlega af sjálfum sér, og grætt á því þegar krónan hefur lækkað. Á sama tíma hefur verkalýðshreyfingin rétt út sáttarhönd og við lifað á tímum þjóðarsáttar sem þýðir að almenningur hefur látið allt yfir sig ganga. Þá myndi einhver segja að kominn væri tími til að dusta rykið af Kommúnistaávarpinu.
En því er ekki að heilsa. Aðeins einn maður á Íslandi tekur Kommúnistaávarpið alvarlega og það er Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann virðir ekki eignaréttinn, ekki höfundarrétt Halldórs Laxness. Það þarf ekki að lesa lengi í skýrslu Helgu Kress til að sjá að hér er um hreinan ritstuld að ræða. Eina leið Hannesar til að réttlæta hann er að segja að eignarétturinn sé einskis virði. Þar getur hann borið fyrir sig gamla stjórnleysingja einosg Proudhon, því Karl Marx virti einstaklingbundna snilligáfu mikils og löfsöng ritverk höfunda á borð við Balzac.
Ef við leyfum okkur að líkja ritverkum Halldórs Laxness við kjörbúð hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson ekki bara hnuplað einum lifrarpylsukepp eða kexpakka, heldur mætt með heilan sendibíl að næturlagi og mokað út úr búðinni.
Ef Hannes væri stjórnleysingi, einsog þeir sem leggja undir sig hús og trufla samkomur fjálmálafursta með klút fyrir vitum, gæti hann sagt: Ég er á móti eignaréttinum. Höfundar eiga ekkert í sínum bókum. En Hannes hefur verið talsmaður fjármagnsfrelsis, einkaeignaréttar og þá væntanlega höfundaréttar.
Þessum spurningum þarf Hannes að svara og líka háskólinn og Sjálfstæðisflokkurinn, því í ljósi alls þessa, hver er afstaða Sjálfsætðisflokksins til eignaréttarins? Þetta vil ég sem borgari þessa lands og höfundur minna bóka fá að vita eða get ég búist við að hitta eigin verk undir nafni annars höfundar?
...
Við þekkjum öll friðarboðskap John Lennons í laginu Imagine, að við eigum ekki að láta hugmyndir um himnaríki eða helvíti stjórna okkur, og ekki landamæri, og þá er engin ástæða til að drepa, og enginn málstaður til að deyja fyrir. ... Já kallið mig bara draumóramann, segir John Lennon, but I am not the only one, ég er ekki sá eini ... Friðarboðskapur Chaplins í lok Einræðisherrans er ekkert ósvipaður og fleiri mætti kalla til leiks.
En John Lennon var ekki bara tónlistarmaður með boðskap, hann var líka orðheppinn maður. Til að mynda á hann að hafa sagt í hálfkæringi þegar hann frétti af dauða Elvis Presley. "Elvis, dó hann ekki þegar hann gekk í herinn?" en það var sautján árum áður en hann dó. Blessuð sé minning hans og Lennons og Chaplins.
Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, mér verður hugsað til utanríkisráðherrans okkar, því óneitanlega hlýtur mikið að hafa gerst frá því að Ingibjörg Sólrún mótmælti veru okkar í NATO, gat sungið Imagine með góðri samvisku og tekið undir friðarboðskap Chaplins, og þar til hún nú flýgur á einkaþotu til hérráðsfundar í Búkarest og samþykkir tillögur Bandaríkjanna um eldvarnarhjúp yfir Evrópu vegna þess hvað Íranir eru hættulegir að mér skilst.
Í skáldsögu minni Englar alheimsins orðar Páll þetta svo: Ég er Reykvíkingur, - reykjandi víkingur - fæddur á fæðingardeild Landspítalans við Hringbraut þann 30. mars árið 1949, sama dag og Ísland gekk í NATO. Ég ætla samt ekki að fara að líkja mér við NATO, hernaðarmætti þess við aflleysi mitt, höfuðstöðvum þess við Klepp eða öryrkjablokkina. Hinu er þó ekki að neita að rúmum fjörutíu árum eftir fæðingu mína, þegar ég tók pokann minn og yfirgaf þessa jarðvist, stóð NATO einnig á tímamótum. Allt sem þetta volduga hernaðarbandalag hafði barist gegn var hrunið og við því blasti ekkert nema einmanaleiki þess sem er reiðubúinn að berjast en hefur engan til að berjast við. ...
Nú spyr ég: Er þetta ekki kjarni málsins? Var einhver þörf fyrir NATO eftir að kalda stríðinu lauk? Þetta má aldrei ræða, en samt er NATO aldrei öflugra en nú um stundir. Það stækkar í allar áttir. Hernaðarmannvirki rísa upp í Póllandi og Tékklandi. NATO ríkin eru blóðug upp fyrir axlir í Írak; og hafa þau einhvern tíma gert upp við fortíð sína, valdaránið í Grikklandi árið 1967 og fleira.
En Come on Ingibjörg Sólrún! Hættu þessari vitleysu. Heimurinn er að farast úr þessu bulli. Farðu á næsta NATO-þing og syngdu fyrir þá Imagine og haltu ræðu einsog Chaplin. Ef þú vilt syngja fleiri lög get ég komið heilan lagalista handa þér. Ég mæli með Masters of War eftir Bob Dylan. Vertu jafnvel í lopapeysu. Þú getur líka vitnað í Halldór Laxness og sagt þessum hernaðarsinnum að þeir eigi ekki að drepa fleiri en þeir geti étið. Að sú hafi verið skoðun Bjarts í Sumarhúsum. Ef þú gerir þetta verður þín minnst á blöðum sögunnar. Ef ekki, þá hefur þú bara lent í vondum félgasskap einsog stundum hendir unglinga, og við verðum að reyna að bjarga þér. Flokkssystkini þín munu reyna að koma fyrir þig vitinu, sem sé, að þú átt frekar að syngja með draumóarmönnunum en taka undir stríðsæsingar Georgs Bush. Samþykktir NATO í Búkarest gagnast þegar upp er staðið engum nema vopnaframleiðendum og hálf tjúlluðum hugmyndum þeirra um geimvarnarhjálm yfir lönd okkar. Ef þú vilt ekki þiggja þessi einföldu ráð og segir bara að þetta séu draumórar þá getum við ekkert fyrir þig gert og verðum að leyfa þér að ná botninum í þessum vonda félagsskap, sem kyndir markvisst undir stríði og ómældum þjáningum fólks sem ekkert hefur gert okkur.
...
Ágæti áhorfandi, ég geri fastlega ráð fyrir að þú sért að velta fyrir þér fjárfestingum, það er víst enginn maður með mönnum nema hann velti fyrir sér fjárfestingum. Kannski vantar þig íbúð, en það er hættuspil að kaupa íbúð. Þær lækka bráðum um þrjátíu prósent og þá skilst mér að taugadeildirnar fyllist af fasteignasölum. Það er eiginlega merkilegt að þegar seðlabankastjóri hittir naglann á höfuðið þá verða allir vitlausir. Ásamt bílstjórunum virðist hann geta hleypt öllu í bál og brand.
Það er bara staðreynd að íbúðir mega alveg vera þrjátíu prósent ódýrari en þær eru og það eru þessir sömu fasteignasalar og fá taugaáfall yfir orðum seðlabankastjóra sem eru búnir ásamt spjátrungum úr bankakerfinu að kjafta upp verðið á fasteignum. Um meira en hundrað prósent. Hvað hefði verið sagt ef Seðlabankinn hefði spáð því? Með því verðlagi sem verið hefur á fasteignum er verið að taka alla sjálfsbjargarviðleitni af ungu fólki. Það getur ekki hreyft sig og ef það hreyfir sig situr það í skuldafangelsi það sem eftir er.
Þessi hundrað prósent lán sem Framsóknarmenn komu á með sjónvarpsauglýsingum, sem gylliboðum til ungs fólks sem nú situr í súpunni, ætti nánast að flokka undir refsivert athæfi eða að minnsta kosti fullkomið ábyrgðarleysi. Ef einhvern veginn er hægt að snúa þessari þróun við þá gerið það STRAX! Nema ef stefnan er sú að fjölga eigi á biðlistum félagsbústaða.
Hingað var ég kominn í pistlinum, sem ég ætlaði að leiða að því að skynsamlegasta fjárfestingin væri í ljóðabókum, en þá greip lögreglan inn í atburðarrás orðanna með barsmíðum sem gefa mun ráðherrum ríkistjórnarinnar færi á að segja við kollega sína í öðrum löndum, við höfum alveg sambærileg vandamál og þið, við þurfum líka að berja fólk, og tindátaleikurinn getur haldið áfram, sérsveitir, hjálmar, skildir, úðunarbrúsar, you name it, en allt fæst þetta í dótabúð valdsins sem býr sig undir grimmdarlegri stéttaskiptingu en nokkru sinni fyrr, niðurbrot velferðarkerfisins og einmitt með aðstoð þeirra flokka sem byggðu það upp. Svona er heimurinn skrýtinn!
Hafi lögreglan ætlað hrista af sér slyðruorð, vegna hvatningar frá þingmönnum, misskildi hún algjörlega hlutverk sitt. Hún átti að halda áfram að gefa bílstjórum í nefið og gera slíkt hið sama næst þegar náttúruverndarsinnar vilja koma boðskap sínum á framfæri, þó ekki viti ég hve mikið þeir eru fyrir neftóbak. Í leiðinni hefði mátt draga tilbaka kærur á hendur Ólafi Páli og öðrum náttúrubörnum. Við viljum lögreglu sem býður í nefið, ekki áhættuleikara með úðunarbrúsa og einhvers konar kokkahúfur á höfðinu. Af hverju voru úðunarbrúsamennirnir, fremsta víglína, ekki með hjálm, bara baksveitin?
En gert er gert. Ég ætla ekki að taka afstöðu til einstakra krafna bílstjóranna. Hitt vil ég benda á að reiði þeirra er reiði sem kraumar undirniðri í öllu þjóðfélaginu og er tákn um dáðleysi stjórnvalda. Sturla segir, þeir eru búnir að vera athuga málin í þrjú ár og eftir standa Sturla og félagar með tuttugu tonna mótmælaspjöld. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd virðist skipuð einhverju værukærasta liði sögur fara af. Þeir vísa öllu frá sér, ekki síst loforðunum sem þeir gáfu og dettur ekkert í hug nema að leyfa innflutning á svínakjöti og heyja stríð við bændur.
Er nema von að Bjartur í Sumarhúsum vakni og bílstjórarnir á Suðurlandsveginum eru að vekja hann. Brátt verður tími þjóðarsáttar fyrir bí, en það er ekki út af bílstjórunum, það eru stjórnvöld, þau vilja einfaldlega ekki sættast við fólkið í landinu ... og að því sögðu lofa ég pistli þar sem ég sýni fram á að fram á að ljóðabækur eru besta fjárfesingin ... Ég mæli með þessari til að byrja með ... heildarsafni á ljóðum Ísaks Harðarsonar.
...
Við eigum tvö góð orðtök á tungu okkar sem í fljótu bragði virðast stangast á. Annað segir: Heimskur er sá sem heima situr, en hitt er Heima er best. Þetta þýðir í rauninni að við eigum að fara burt og koma svo aftur, eða með öðrum orðum: Við eigum að vera opin fyrir heiminum en rækta okkar eigin garð. Þannig kemur heimurinn til okkar og við til hans.
Margir líta svo á að alþjóðavæðingin hafi fokkað þessu upp, að menn séu hvorki heima hjá sér né að heiman, en í gegnum tíðina höfum við litið svo á að við eigum að vera sjálfstæð en í stöðugum samskiptum við umheiminn. Nú virðist hins vegar sjálfstæðið hætt að skipta máli af því að það sé hvort eð er horfið.
Bjartur í Sumarhúsum sagði að sjálfstæði væri betra en kjöt. Því virðist nútíminn algjörlega ósammála. Nú má nánast gefa allt fyrir ódýrar matvörur þó flestir virðist hafa nóg að éta að því er best verður séð í hjáveituaðgerðum og öðru. Aumingja krónan, hún er einsog Bjartur í Sumarhúsum, nema ekki jafn stolt, og erfitt um að segja hver sé Rauðsmýrarmaddaman, seðlabankastjóri eða evruspekingarnir með erkibiskupsboðskap á vörunum.
Hugmyndir Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, innblásnar af þýsku rómantíkinni og frönsku byltingunni, hafa ekkert gildi lengur ef við getum étið á okkur gat af innfluttu svínakjöti og þegið um leið reglugerðir um allt milli himins og jarðar. Þetta er veruleikinn, en spurningin er, hvað finnst okkur um hann? Hver er við völd? Er það feiti þjónninn eða barði þrællinn?
Fyrir nokkrum árum stóð til að Færeyingar hlytu fullt sjálfstæði. Deilt var um aðlöðunartíma. Færeyingar vildu hafa hann fimmtán árum lengri en danska stjórnin vildi veita þeim. Nú kunna að hafa legið ýmis rök fyrir því, en samt var þetta skrýtið. Ég fór að hugsa, hvað hefðu íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sagt við þessu? Nú eða Bjartur í Sumarhúsum?
Kannski eru Færeyingar bara svona vel upp aldir, að þegar þeim er boðið að verða sjálfstæðir strax vilja þeir fá að vera ósjálfstæðir fimmtán árum lengur. Er það ekki bara staðreynd að nú er feiti þjónninn við völd og allir hugsa með hans höfði. Þannig er búið að valta yfir Bjart í Sumarhúsum og allar hugmyndir um sjálfstæði eru afgreiddar sem fortíðarhyggja. Í samræmi við þetta eru jafnaðarmenn orðnir að einskonar burðardýrum fyrir frjálshyggjuna. Þeirra hlutverk er að halda hugmyndafræðinni að fólki, til dæmis í kosningum, en framkvæma síðan hreina og klára hægristefnu. Síðan taka þeir út refsinguna í kosningum og næsti tekur við.
Því segi ég einsog Halldór Laxness, skapari Bjarts í Sumarhúsum, eigum við ekki að lyfta umræðunni á hærra plan? Skiptir til dæmis sjálfstæðið okkur máli? Viljum við búskap? Viljum við byggð? Ætlum við bara að vera kotungar hjá kóngi og smjaðra fyrir skriffinnum? Á bara að svifta öllu burt með snyrtilegum reglugerðum og skjóta málinu markaðarins sem mállaus vinnur sín verk? Hvar stöndum við sem hreiðrað höfum um okkar á þessar hrjótrugu hundaþúfu undir Grænlandsjökli? Jú, heimskur er sá sem heima situr en heima er best.
...
Skilaboð númer sex
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo� n�mer sex
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Skilaboð númer fimm
Ég las eitt sinn úr verkum mínum í Englandi. Að upplestri loknum reis kona úr sæti sínu og sagði: "You seem to have a very English sense of humor." Konan var að hrósa mér. Þegar Englendingar tala um enskt skopskyn meina þeir gott skopskyn. Samt sýnir þetta hrokann, hvernig hann er vaxinn inn í tungmálið, þegar hin fornu stórveldi telja jafnvel kímnigáfuna séreign sína.
Í annað sinn las ég upp fyrir Zulu menn í borginni Durban í Suður-Afríku. Ég las upp á ensku og allt var um leið þýtt yfir tungumál þeirra. Zulu mennirnir hlógu að öllu sem ég sagði, hvort sem þeim þótti ég svona spaugilegur eða fyndinn, en enginn þeirra sagði: "You seem to have a very Zulu sense of humor."
Við búum á hnetti. Hann er einsog kúla í laginu. Þess vegna er engin miðja. Miðjan er undir iljum sérhvers jarðarbúa. Því segi ég: Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Ef þessari eðlilegu landafræði væri fylgt byggjum við í betri heimi og þá væru voldugar og vanmáttugar þjóðir ekki til. Þá væri engin ástæða til að ráðast inn í lönd og slá eign sinni á olíulindir og önnur náttúrugæði.
...
Um daginn sá ég heimildarmynd um Almeria-svæðið á Suður Spáni. Þar er framleiddur þriðjungur af vetrarneyslu Evrópubúa á grænmeti og ávöxtum. Í endalausri þyrpingu gróðurhúsa vinna 80.000 innflytjendur í andrúmslofti sem búið er að eyðileggja með skordýraeitri. Innflytendurnir eru á skítakaupi og eru margir orðnir vitskerrtir út af aðbúnaðinum. Þetta er ekkert annað en þrælahald þó það heiti eitthvað annað. Þetta er ein skýringin á því hvernig hægt er að halda matvælaverði niðri í Evrópu og sá kraumandi pottur sem margir Íslendingar vilja svo ólmir komast í og bera einmitt fyrir sig þessu, matvælaverðinu.
En ég segi: Byrjum að taka til heima hjá okkur. Lækkum raforkuverð til gróðurhúsabænda og virkjum líka orkuna sem í okkur býr. Hugsum um gæðin, ekki bara magnið. Notum orkuna til að bæta hag heimilanna í stað þess að gefa hana sléttgreiddum fulltrúum peningavaldsins. Tökum til. Við getum ekki gefið það af okkur sem við höfum ekki öðlast sjálf.
Það var nefnilega ekki síður fróðlegt að heyra eigendur búgarðanna réttlæta athafnir sínar. Jú, sögðu þeir, þeir voru í samkeppni á markaði og kepptu við markaði þar sem enn meira þrælahald tíðkaðist, í Mið-Ameríku og Afríku. Þetta eru nákvæmlega sömu röksemdirnar og fulltrúar íslenska kvótakerfisins nota þegar heilu byggðalögin eru skilin eftir tómhent.
Eða einsog segir í ljóðinu: Hinn frjálsi maður er ekki lengur veginn með vopnum, ekki höggvinn í herðar niður eða brenndur á báli. Þess í stað er honum svipt burt með snytrilegri reglugerð og málinu skotið til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk.
...
Fólk er að drukkna í hugfræðihugtökum sem allir nota en enginn skilur. Samanber allar fjárfestingarnar. Einn kaupir annan og annar kaupir hinn, og þeir heita jafn fjölskrúðugum nöfnum og jólasveinarnir.
Einhver græðir glás af seðlum og allir eru svaka ríkir á meðan ellilífeyrisþegarnir hnipra sig í kompum, fólk gengur heimilislaust um götur og lægstu laun eru svo lág að enginn trúir að nokkur sé á þeim. Jafnvel jafnaðarmenn yppta öxlum þegar þeir heyra verkalýðinn nefndan á nafn. Hann hafa þeir ekki séð í mörg ár.
Hér eitthvað sem rímar ekki. Eða réttara sagt: Þetta er heilmikil hagfræði. Á meðan er heiminum huggulega deilt upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með vestrænum Bushlimum gegn múslimum sem vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar.
Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en sjálft er stríðið háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig fólkið sem þjáist undan þessu öllu á að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna.
Málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið, sópar göturnar, afgreiðir í búðinni og þjónar til borðs á veitingahúsinu. Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?
Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á fjárfestana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?
...
Æðsta viðurkenning sem skáldum og vísindamönnum hlotnast eru Nóbelsverðlaunin. Þau eru sjötíu milljónir og eru vanalega veitt fyrir einstakt ævistarf, enda verðlaunahafarnir oftar en ekki gamlir menn og hoknir. Öflugustu fjárfestarnir hala inn fimm- til sex Nóbelsverðlaun á ári, sé þetta mælt í peningum, lífeyrissjóðir leika matador og með hugarflugi, sem enginn skilur, margfaldast eignir manna. Ef þeir hætta í vinnunni hverfa þeir á braut með fjárlögin.
Nú eru kjarasamningar lausir og auðvitað fer allt á annan endann ef lægstu laun hækka um fimm þúsund krónur. Ef ég væri verkalýðsforingi myndi ég spyrja: Búa fátækrahverfin innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Hvað verður um umhyggjuna í öllu ríkidæminu?
Fátækt er heldur ekki endilega rétta orðið yfir ellilífeyrisþegana í kompunum, útigangskonurnar með sprittið og allt félagslega botnfallið. Eymd er betra orð og þessi eymd er allra, ekki bara þeirra sem fyrir henni verða. Hún er fátækrahverfið innra með okkur.
...
Fyrir rúmri viku var dagur íslenskrar tungu. Það getur enginn haft neitt á móti því, þó það sé skrýtið að henni sé aðeins helgaður einn dagur. Samt er það ekkert skrýtið þegar varaformaður næst stærsta stjórnmálaflokksins telur að best sé að við tölum ensku og íslensku til skiptis.
Annar stjórnmálamaður berst fyrir því að áfengi sé selt í matvörubúðum. Gott á hann. Ímyndum okkur að áfengi væri bannað en hass væri löglegt og hass selt í ríkinu. Þá myndi Sigurður Kári vera að berjast fyrir því að hass væri selt í grænmetisdeildum búðanna. Gott á hann. Alla vega væri röksemdafærslan sú sama.
Mér er svo sem sama hvar Sigurður Kári kaupir sitt bús og mín vegna má Ágúst Ólafur tala ensku á fundum Samfylkingarinnar. Þar er hvort eð töluð einhver evrópska. Orðið verkalýður heyrist ekki lengur og ef einhver notar orðin auðvald eða arðrán líður yfir hálfan flokkinn.
Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessum málum, hvorki áfengiskaupum Sigurðar Kára né tungutaki Ágústs Ólafs. Mín vegna mega þeir taka tappa úr flösku og tala saman á ensku.
Það sem ég er að velta fyrir mér eru hinar sígildu setningar Arthurs Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Getur verið að orðin, verkfærin sem við notum til að tjá okkur, ráði í raun hvað við segjum? Erum við hugsuð fremur en að við hugsum? Áður fyrr byggðist vald manna ekki síst á því leiknir þeir voru með orðin. Hinn menntaði maður hafði orðin á valdi sínu. Stjórnmálamenn voru ræðuskörungar, ferskeytlan hvöss sem byssustingur og þar fram eftir götum.
Nú á dögum segjum við ekki um stjórnmálamanninn: "Hann er flugmælskur." Þess í stað segjum við: "Hann kemur vel fyrir í sjónvarpi."
Hvernig hefði Egill Skallagrímsson komið fyrir í sjónvarpi? Hvernig væri hægt að markaðssetja hann? Væru ljóð hans vinsæl? Hér á árum áður lásu stjórnmálamenn Íslendingasögurnar og héldu síðan glaðbeittir út í kosningabaráttuna. Nú fara þeir aftur á móti í litgreiningu og mæta fyrir framan upptökuvélarnar einsog tískan býður.
Geta þeir ekki sagt einsog Arthur Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Því endurtek ég bara upphafsorð mín: Þú sem býrð með eyju í hjartanu og víðáttur geimsins stétt undir iljunum: Réttu mér norðurljósin! Ég ætla að dansa við unglinginn sem heldur á stjörnunum. V ið roðflettum myrkrið og afhausum eymdina.
Og verði ég sendur til útlanda að semja við skrifstofubáknið mun ég segja á íslensku: Því miður, herra framkvæmdastjóri, ég hef ekkert að bjóða í þessum samningaviðræðum nema þrjú tonn af kokteilsósu, örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu og allar hljómplötur Árna Johnsens.
...
Nú vil ég biðja þá sem í óskammfeilni sinni gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvermber árið 1932 að vera svo vingjarnlega að snúa við og ganga hann upp.
Þessar setningar komu til mín hér um árið þegar fjölmiðlamenn vildu í óða önn gerast skriftarfeður fyrir aflóga sósíalista. Þeir áttu ekki bara að fagna hruni úreltra þjóðfélgaskerfa heldur í raun að játa að öll réttindabarátta almennings, verkalýðsbaráttan, hafi verið misskilningur. Ef þeir biðu afsökunar á axarsköftum fortíðarinnar yrði litið á mál þeirra mildari augum af lögregluyfirvöldum frjálshyggjunnar.
Þetta gekk svo nærri mönnum að meira að segja hinum galvaska leiðtoga vinstra manna Steingrími J. vafðist tunga tönn í síðustu kosningabaráttu þegar hann var spurður að hvort hann væri sósíalisti. Búið er að hlaða slíkri neikvæðni á orðið, þó það þýði í raun bara jafnaðarmaður.
Frjálshyggjan, sem nú herjar á velferðarkerfið, vann því ekki aðeins kalda stríðið, hún vann einnig stríðið um tungumálið. Lengi vel hefur enginn opnað svo kjaftinn í sjónvarpinu að hann segi ekki: "Ég held að samkeppni sé af hinu góða," og það má eflaust til sanns vegar færa, en er ekki líka samvinna af hinu góða og samhjálp? Hvernig hefði Jesús litið á málin?
Nú er ég ekki á móti einkarekstri, - á mörgum sviðum er eina vitið - en af hverju verður allt vitlaust þegar fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður barnafjölskyldum upp á jólahlaðborð á viðráðanlegu verði? Eftirlit með tannhirðu barna er tekið úr skólum, og tannheilsa þeirra hrynur á nokkrum árum, allt af því að einhverjir segja að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í hinu og þessu.
Það er sagt að Bandaríkin hafi aldrei borið sitt barr eftir einkavæðingu Regantímabilsins. Heilbrigðiskerfið var hreinlega lagt í rúst, geðsjúkum var vísað út á götur og meðferðarstofnunum lokað. Þetta ætti að kenna okkur að standa vörð um meðferðarúrræðin sem hér finnast. Það getur verið dýrt að spara á þeim sviðum. Oft er betra að spyrja sig hvað kostar að gera hlutina ekki.
Nú eru kjarasamningar í aðsigi, og lægstu laun eru svo lág að þau duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum, en þjóðfélagið virðist yppta öxlum, og hugsa svipað og drottningin þegar fólkið mótmælti forðum, og karfðist brauðs, en þá sagði drottningin: Fyrst fólkið á ekki brauð, af hverju borðar það ekki kökur?
Þetta leiðir hugann að undarlegum myndum sem skaut upp í fréttatíma sjónvarpsins fyrir rúmum áratug. Þá voru l angferðabílstjórar í verkfalli og stóðu fyrir framan rútubíla með úðunarbrúsa og úðuðu á rúður þeirra og hleyptu vindi úr dekkjum þeirra. Í blálýstum stofum landsmanna birtust langferðabílstjórararnir sem pörupiltar og götustrákar, en talsmenn vinnuveitenda böðuðu sig í samúð myndavélanna.
Ég man að unglingar víðs vegar um landið héldu að verið væri að sýna úr nýrri kvikmynd. Í þeirra augum var þetta ekki veruleiki fyrr en fulltrúar vinnuveitenda birtust á skjánum. Þá rifjaðist upp fyrir mér að á mínum unglingsárum geisuðu oft harðar vinnudeilur.
Síðan hefur verkalýðshreyfingin orðið stærsti sumarbústaðaeigandi landsins, með lífeyrissjóði sem spila bingó og kaupa vonlaus fótboltalið, enda halda sumir unglingar að Alþýðusamband Íslands sé ferðaskrifstofa. Ekki skal ég skal ekki tjá mig um stöðu kjaramála, en útkoman er þjóðarsátt full af sumarbústöðum og lífeyrissjóðir sem fjármagna matador auðmanna á meðan einstaka hópar berjast einir í kuldanum, einsog langferðabílstjórarnir forðum, eða berjast bara ekki neitt.
Og það sem verra er: Öllum er sama, því ekki er lengur nein samstaða, þar sem öllum er ætlað að keppa, og því segi ég: Hvort sem sagan er línurit eða súlurit í auga hagfræðingsins á skjánum er heimurinn kartafla í lófa guðs. Eða einsog amma mín sagði: Fólk verður leiðinlegt ef það trúir ekki á neitt skemmtilegt. Þess vegna kýs ég að trúa á samstöðuna, hvar sem hún finnst, og segi við þá sem gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvember árið 1932, verið stolt af því.
...
Vinur minn, sem býr suður með sjó sagði við mig þegar ég heimsótti hann í fyrra: Eitt sinn voru þrjúhundruð bátar við höfnina en þrír að vinna í bankanum. Nú eru þrír bátar við höfnina en þrjúhundruð að vinna í bankanum.
Annar vinur minn og jafnaldri, fæddur vestur við Breiðafjörð, segir svo frá að strax þá um vorið hafi fyrsta lambið hans fæðst. Það tíðkaðist í sveitinni að börn fengu lamb á hverju vori.
Það átti að vera trygging fyrir framtíðina, sem sé, að þegar börnin væru komin á legg hefðu þau eitthvað fé milli handanna. Amma þessa vinar míns sá til þess á hverju hausti að leggja andvirði hvers lambs sem slátrað var inn á bankabók í kaupstaðnum.
Amma hans sagði að þegar hann yrði stór gæti hann keypt sér íbúð eða bíl fyrir peningana. "Auðvitað trúði ég ömmu minni," segir vinur minn, "hver gerir það ekki? Ekki ljúga ömmur."
Svo liðu árin. Alltaf bættust ný ærgildi inn á bankabókina. Það kom að því að vinur minn flutti til borgarinnar og tók bílpróf. Hann hélt rakleitt í bankann og ætlaði að taka peningana út úr bankabókinni og kaupa sér bíl.
Það urðu heldur betur vonbrigði þegar hann komst að því að lítið sem ekkert var inni á bankabókinni. Öll lömbin sem samkvæmt hagspekinni hefðu átt að ávaxta sig voru andvirði tveggja lambalæra úr frystikistu kjörbúðarinnar í hverfinu.
Þetta var skrýtið, því ekki ljúga ömmur, en það gera bankastjórar ekki heldur. Þegar vinur minn spurði bankastjórann hvað hefði orðið um lömbin hans sagði bankastjórinn að verðbólguúlfurinn hefði étið þau. Þá sakaði hann bankann um sauðaþjófnað og fór fram á að þeir skiluðu lömbunum en var fyrir vikið sakaður um dónaskap og hent út.
Þessi vinur minn dró þann lærdóm af þessum óförum sínum að skipta ekki frekar við banka, og hefur hann að mestu leyti staðið við það. Hvað mönnum finnst um það skiptir ekki máli.
En spurningin er hvort hér sé ekki hagkerfi okkar í hnotskurn og það sé nákvæmlega þetta sem er að gerast á hinum svokölluðu fjálmálamörkuðum. Sparifé fólks og fjárfestingar gufa upp og verða að engu, lömbunum hefur fækkað í stað þess að fjölga, en við sem höfum setið heima og skiljum hvorki úrvalsvísitöluna né kvótakerfið hljótum að spyrja, í hvaða formi endurtekur þessi saga sig næst?
Kannski segjum við bara einsog Megas: Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna frímerkjum.
...
Þegar ég fór að hugsa um þennan pistil minn í upphafi vikunnar sá ég af gefnu tilefni fyrir mér heilu hnífasettin í bökum framsóknarmanna, en nú gengur Framsóknarflokkurinn undir nafninu fatahreyfingin, og vita ekki hvort þeir eiga að halda sig á vesturbakka eða austurbakka stjórnmálanna, en hafa samt hafnað á tjarnarbakkanum.
En einmitt þennan sama dag og ég fór að hugsa þetta þá hrundi borgarstjórnin og ég sat eiginlega uppi með Sjálfstæðisflokkinn og einherjana í Valhöll, í senn þvoglumælta og baráttuglaða, en þeim hafði einmitt tekist að véla til sín umhverfisvænan lækni, Ólaf F. Magnússon, sem eitt sinn bjargaði lífi vinar míns og mér er því ákaflega hlýtt til. Það gerði hann með skjótum og fumlausum höndum læknisins og hefur ávallt borið með sér þokka manngæskunnar, og eflaust fatað sig án hjálpar.
En þegar kvölda tók stóðu þeir þarna hinir nýju ráðamenn, fölir og gráir, einsog stjórnmálamenn úr ráðstjórnarríkjunum gömlu, já nánast einsog Jaruselsi þegar hann var nýbúinn að setja herlögin í Póllandi eða kommúnistarnir þegar þeir ætluðu að eiga sitt Comeback í andaslitrum Sovétríkjanna, og var afar viðeigandi að þetta væri á Kjarvalsstöðum því athöfnin eða krýningin var einsog mynd á sýningu, eða leikþáttur, saga sögð af bjána, full af mögli og muldri, og merkir ekki neitt, svo gripið sé til Shakespears.
En nú er ég bara að tala um útlit og fas, ég er að rýna í myndina, jakkafötin sem þeir eflaust hafa greitt úr eigin vasa, gagnstætt framsóknarmönnum sem hafa einfaldan smekk og velja aðeins það besta, enda nýkomnir á mölina til að að sanna svo rækilega að þar eigi þeir heima, líklega með greiðslukort S-hópsins í vasanum, en á þeim bæ munar menn lítið um nítján pör af sokkum eftir að hafa fengið heilan banka í þjórfé og látið Elton John syngja sín alfegurstu lög.
Þetta var á Kjarvalsstöðum, Kjarklambrastaðatúni, einsog Megas kallaði það, en þar las Matthías skáld eitt sinn ljóð sín, og þá voru kommarnir illkvittnir og kölluðu hann Exile on Main Street, en nú eru aðrir tímar og ljóðin láta vel í eyrum allra og kommarnir bugta sig og beygja fyrir Matthíasi og ljóðum hans.
Og kannski hafa þau svifið einsog ský yfir höfðum borgarstjórnarhópsins, sem greinilega hafði skilið hnífasettin eftir heima, og fallist í faðma við lækninn, sem nú gaf þeim resept upp á framtíðina, en ég hef varla sleppt þessu orði, resept upp á framtíðina, þegar hún er orðin ótrygg, í spennitreyju, einsog ávallt í gömlu Ráðstjórnarríkjunum, sem frjálshyggjumennirnir virðast elska í laumi, í samræmi við þá kenningu að harmleikurinn endurtekur sig sem skrípamynd. Því héldu forsöngvararnir tveir varla lagi á meðan undirleikarnir stóðu fyrir aftan þá einsog hnípin þjóð í vanda. Um þetta vitnðu ljósmyndir strax daginn eftir.
Á meðan þessu öllu fór fram mátuðu framsóknarmenn sín keisaraklæði í Norræna húsinu, og hvergi sáust hnífar og frú Makbeð ekki tiltæk, hvað þá marktæk eða róttæk, frekar en þessi kyndugi flokkur sem fyrir löngu er búinn að gleyma erindi sínu í allri jakkafatavæðingu frjálshyggjunnar. Hann er fyrir löngu búinn að kokgleypa allt sem hann á ekki að gera, steingleyma öllu er varðar jafnvægi í byggðum, tengsl manns og náttúru, enda arkítekt þess kvótakerfis sem leikið hefur byggðir landsins grátt, og því mun þessi flokkur, Framsóknarflokkurinn, aldrei komast úr sporunum fyrr en hann hefur tekið til í rústum fortíðarinnar, gert upp við kvótakóngana, kauphallarbraskarana og S-hópana.
Væri til dæmis hægt að fara fram á afturvirka eignaupptöku og skila ránsfengnum? Væri það hugmynd? Með öðrum orðum, fara úr jakkafötunum og í vinnuskyrturnar, setjast upp á trakorana, taka fram handfærin og leggja frá sér hnífasettin og illkvittnina og stærilætið sem hreiðrað hafa um sig í spegilhöllum hégómans.
...
Markaðurinn á að vera frjáls, en ekki fólkið. Það er boðorð dagsins. Það þarf meiri peninga fyrir þá sem eiga nóg af þeim. Einhver fékk þrjúhundruð milljónir fyrir að byrja í vinnunni. Kannski ættu bankastjórarnir að semja fyrir láglaunafólkið sem er tíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun þeirra. Þeir gætu fengið árangurstengda þóknun svo eitthvað sé í boði.
Ef ríkisstjórnin væri bolti myndi ég sparka henni út af. Vandinn er bara sá að þá fengi hún horn og skoraði glæsilegt mark því stjórnarandstaðan er svo léleg í vörn. Þannig er staðan: Gamlingjar lokaðir inni vegna elliglapa en unglingar á lyfjum vegna æskufjörs. Elvis er enn í hernum og vinir mínir, stjórnleysingjarnir, hafa skráð sig í lögregluskólann. Meira að segja Bob Dylan er búinn að gleyma öllu sem hann sagði en hann sagði það samt og þar við situr hvað sem hann segir.
Já félagar, látið dæluna ganga, það vantar ekki bara ljóðlist í lífið, heldur líf í ljóðið, enda hefur ekkert frést af Johnny Rotten síðan hann opnaði fasteignasölu í Los Angeles. Við sendum okkar bestu kveðjur héðan úr hagvextinum og vonum bara að húsnæðismarkaður hugans sé ekki síðri þar en hér, og þú í góðum málum enn á móti hræsni, enn á móti lýðræði, enn á móti skrifræði og öllu sem endar á i.
...
Það reynist mörgum erfitt að viðurkenna hverjir þeir eru og fyrir hvað þeir standa. Engum geðjast að þeirri tilhugsun að vera álitinn óréttlátur og svikull, jafnvel lyginn, og öllum finnst leitt þegar hugsjónir þeirra hrynja til grunna einsog spilaborg. Samt er þetta oft niðurstaðan af athöfnum okkar og ekkert skrýtið að við þrætum fyrir hana og reynum að sanna með alls kyns undanbrögðum að hún sé röng. Þá segjum við að þetta sé allt öðrum að kenna, að þeir hafi átt þátt í klúðrinu og séu ekkert skárri en við, jafnvel verri. Við höfum borið niðurstöður okkar undir lögmenn, fyrrverandi lögmenn og jafnvel mætt á miðilsfund með framliðnum lögmönnum, en allt kemur fyrir ekki þegar keisarinn er að lokum flæktur í eigin lygavef og stund sannleikans rennur upp.
...
Í Sovétríkjunum var marxisminn hluti af valdakerfinu, einhvers konar þjóðfélagsleg ríkistrú, og slík kredda að hann var settur upp í orðabók þar sem fyrirbæri mannlífsins voru skilgreind í stafrófsröð. Þetta átti auðvitað ekkert skylt við marxisma eða blómaskeið hans um og upp úr 1968. Á þeim tíma var gefið út álíka mikið af bókum um marxisma og nú á dögum er gefið út um matreiðslu og megrun. Heilar deildir hjá bókaforlögum sérhæfðu sig í útgáfu slíkra rita, enda var haft eftir Willy Brandt, að sá sem ekki sé marxisti um tvítugt hafi ekkert hjarta, en sá sem sé það enn eftir fertugt hafi engan heila.
Áhrif marxismans voru gífurleg, á hugvísindi, bókmenntir, kvennabaráttu, já á allt nema verkalýðinn sem ætlað var að breyta heiminum. Sá marxismi sem breiddist út um Vesturlönd var Sovétmönnum engan veginn að skapi. Þvert á móti vildu þeir friðsamlega sambúð og hana vildu hægrisinnaðir frjálshyggjumenn líka. Þeir gáfu andstöðuöflunum engan gaum. Það gerðu frekar litlir hópar til vinstri, stjórnleysingjar af ýmsu tagi. Þessir hópar upplýstu fólk um andstöðuna, skrifuðu greinar, héldu fundi og gáfu út bæklinga. En fáir mættu á fundina og salan á bæklingunum var jafn treg og hjá Jóhannesi Birkiland forðum.
Þessir hópar voru í tenglsum við háskólaprófessora sem gerðir höfðu verið að götusópurum, verkalýðsleiðtoga sem unnu við gluggaþvott og landflótta baráttumenn; en það var talað fyrir daufum eyrum. Það var ekki fyrr en múrarnir hrundu að allir vildu Lilju kveðið hafa. Þegar efnt var til sigurhátíða eftir fall alræðisins stóðu baráttumennirnir oft einsog illa gerðir hlutir á meðan salirnir fylltust af ungum markaðshyggjumönnum sem skáluðu, líklega hver fyrir örðum, enda rann upp sú efnishyggja nútímans sem nánast er lögboðin sjálfselska, þar sem græðgin er göfug og heitir flottum nöfnum, en það er einmitt hún sem nú er að fara yfir öll sín strik.
Vefurum fjármála hefur vissulega tekist að blekkja keisarann, en ekki börnin og þannig verður það alltaf, því ekkert varir að eilífu, enginn stóri sannleikur, enginn múr. Öðru hverju eru jafnvel asnar klyfjaðir gulli gerðir afturreka, og má það heita von, ljós í myrkri, stund sannleikans, tákn þess að tímarnir breytast.
...
Við höfum öll verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Svona hefur lífsspeki okkar samfélags hljómað undanfarin ár. Það hefur jafnvel verið rætt um að finna öfundargenið, og þá helst í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem tilraunin hófst, og fólk lagði sparifé sitt en svo var allt lok lok og læs og spariféð horfið, en genið ófundið, en sjálfsagt hafa Danir plantað því, jafn illkvittnir og þeir eru í garð bankanna.
Þessu höfum við trúað á meðan eignir hafa verið færðar frá almenningi til fjármálamanna, bankar seldir á spottprís og yfirmenn skammtað hver öðrum kaupauka fyrir eitthvað sem enginn skilur. Nú þegar syrtir í álinn á almenningur að hlaupa undir bagga og taka við tapinu. Ef þeir fengu kaupauka þegar allt var í plús eiga þeir þá ekki að skila honum þegar allt er í mínus?
Uppi eru kenningar um að bankarnir hafi hagnast á falli krónunnar, að þeir hafi keypt gjaldeyri, væntanlega af sjálfum sér, og grætt á því þegar krónan hefur lækkað. Á sama tíma hefur verkalýðshreyfingin rétt út sáttarhönd og við lifað á tímum þjóðarsáttar sem þýðir að almenningur hefur látið allt yfir sig ganga. Þá myndi einhver segja að kominn væri tími til að dusta rykið af Kommúnistaávarpinu.
En því er ekki að heilsa. Aðeins einn maður á Íslandi tekur Kommúnistaávarpið alvarlega og það er Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann virðir ekki eignaréttinn, ekki höfundarrétt Halldórs Laxness. Það þarf ekki að lesa lengi í skýrslu Helgu Kress til að sjá að hér er um hreinan ritstuld að ræða. Eina leið Hannesar til að réttlæta hann er að segja að eignarétturinn sé einskis virði. Þar getur hann borið fyrir sig gamla stjórnleysingja einosg Proudhon, því Karl Marx virti einstaklingbundna snilligáfu mikils og löfsöng ritverk höfunda á borð við Balzac.
Ef við leyfum okkur að líkja ritverkum Halldórs Laxness við kjörbúð hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson ekki bara hnuplað einum lifrarpylsukepp eða kexpakka, heldur mætt með heilan sendibíl að næturlagi og mokað út úr búðinni.
Ef Hannes væri stjórnleysingi, einsog þeir sem leggja undir sig hús og trufla samkomur fjálmálafursta með klút fyrir vitum, gæti hann sagt: Ég er á móti eignaréttinum. Höfundar eiga ekkert í sínum bókum. En Hannes hefur verið talsmaður fjármagnsfrelsis, einkaeignaréttar og þá væntanlega höfundaréttar.
Þessum spurningum þarf Hannes að svara og líka háskólinn og Sjálfstæðisflokkurinn, því í ljósi alls þessa, hver er afstaða Sjálfsætðisflokksins til eignaréttarins? Þetta vil ég sem borgari þessa lands og höfundur minna bóka fá að vita eða get ég búist við að hitta eigin verk undir nafni annars höfundar?
...
Við þekkjum öll friðarboðskap John Lennons í laginu Imagine, að við eigum ekki að láta hugmyndir um himnaríki eða helvíti stjórna okkur, og ekki landamæri, og þá er engin ástæða til að drepa, og enginn málstaður til að deyja fyrir. ... Já kallið mig bara draumóramann, segir John Lennon, but I am not the only one, ég er ekki sá eini ... Friðarboðskapur Chaplins í lok Einræðisherrans er ekkert ósvipaður og fleiri mætti kalla til leiks.
En John Lennon var ekki bara tónlistarmaður með boðskap, hann var líka orðheppinn maður. Til að mynda á hann að hafa sagt í hálfkæringi þegar hann frétti af dauða Elvis Presley. "Elvis, dó hann ekki þegar hann gekk í herinn?" en það var sautján árum áður en hann dó. Blessuð sé minning hans og Lennons og Chaplins.
Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, mér verður hugsað til utanríkisráðherrans okkar, því óneitanlega hlýtur mikið að hafa gerst frá því að Ingibjörg Sólrún mótmælti veru okkar í NATO, gat sungið Imagine með góðri samvisku og tekið undir friðarboðskap Chaplins, og þar til hún nú flýgur á einkaþotu til hérráðsfundar í Búkarest og samþykkir tillögur Bandaríkjanna um eldvarnarhjúp yfir Evrópu vegna þess hvað Íranir eru hættulegir að mér skilst.
Í skáldsögu minni Englar alheimsins orðar Páll þetta svo: Ég er Reykvíkingur, - reykjandi víkingur - fæddur á fæðingardeild Landspítalans við Hringbraut þann 30. mars árið 1949, sama dag og Ísland gekk í NATO. Ég ætla samt ekki að fara að líkja mér við NATO, hernaðarmætti þess við aflleysi mitt, höfuðstöðvum þess við Klepp eða öryrkjablokkina. Hinu er þó ekki að neita að rúmum fjörutíu árum eftir fæðingu mína, þegar ég tók pokann minn og yfirgaf þessa jarðvist, stóð NATO einnig á tímamótum. Allt sem þetta volduga hernaðarbandalag hafði barist gegn var hrunið og við því blasti ekkert nema einmanaleiki þess sem er reiðubúinn að berjast en hefur engan til að berjast við. ...
Nú spyr ég: Er þetta ekki kjarni málsins? Var einhver þörf fyrir NATO eftir að kalda stríðinu lauk? Þetta má aldrei ræða, en samt er NATO aldrei öflugra en nú um stundir. Það stækkar í allar áttir. Hernaðarmannvirki rísa upp í Póllandi og Tékklandi. NATO ríkin eru blóðug upp fyrir axlir í Írak; og hafa þau einhvern tíma gert upp við fortíð sína, valdaránið í Grikklandi árið 1967 og fleira.
En Come on Ingibjörg Sólrún! Hættu þessari vitleysu. Heimurinn er að farast úr þessu bulli. Farðu á næsta NATO-þing og syngdu fyrir þá Imagine og haltu ræðu einsog Chaplin. Ef þú vilt syngja fleiri lög get ég komið heilan lagalista handa þér. Ég mæli með Masters of War eftir Bob Dylan. Vertu jafnvel í lopapeysu. Þú getur líka vitnað í Halldór Laxness og sagt þessum hernaðarsinnum að þeir eigi ekki að drepa fleiri en þeir geti étið. Að sú hafi verið skoðun Bjarts í Sumarhúsum. Ef þú gerir þetta verður þín minnst á blöðum sögunnar. Ef ekki, þá hefur þú bara lent í vondum félgasskap einsog stundum hendir unglinga, og við verðum að reyna að bjarga þér. Flokkssystkini þín munu reyna að koma fyrir þig vitinu, sem sé, að þú átt frekar að syngja með draumóarmönnunum en taka undir stríðsæsingar Georgs Bush. Samþykktir NATO í Búkarest gagnast þegar upp er staðið engum nema vopnaframleiðendum og hálf tjúlluðum hugmyndum þeirra um geimvarnarhjálm yfir lönd okkar. Ef þú vilt ekki þiggja þessi einföldu ráð og segir bara að þetta séu draumórar þá getum við ekkert fyrir þig gert og verðum að leyfa þér að ná botninum í þessum vonda félagsskap, sem kyndir markvisst undir stríði og ómældum þjáningum fólks sem ekkert hefur gert okkur.
...
Ágæti áhorfandi, ég geri fastlega ráð fyrir að þú sért að velta fyrir þér fjárfestingum, það er víst enginn maður með mönnum nema hann velti fyrir sér fjárfestingum. Kannski vantar þig íbúð, en það er hættuspil að kaupa íbúð. Þær lækka bráðum um þrjátíu prósent og þá skilst mér að taugadeildirnar fyllist af fasteignasölum. Það er eiginlega merkilegt að þegar seðlabankastjóri hittir naglann á höfuðið þá verða allir vitlausir. Ásamt bílstjórunum virðist hann geta hleypt öllu í bál og brand.
Það er bara staðreynd að íbúðir mega alveg vera þrjátíu prósent ódýrari en þær eru og það eru þessir sömu fasteignasalar og fá taugaáfall yfir orðum seðlabankastjóra sem eru búnir ásamt spjátrungum úr bankakerfinu að kjafta upp verðið á fasteignum. Um meira en hundrað prósent. Hvað hefði verið sagt ef Seðlabankinn hefði spáð því? Með því verðlagi sem verið hefur á fasteignum er verið að taka alla sjálfsbjargarviðleitni af ungu fólki. Það getur ekki hreyft sig og ef það hreyfir sig situr það í skuldafangelsi það sem eftir er.
Þessi hundrað prósent lán sem Framsóknarmenn komu á með sjónvarpsauglýsingum, sem gylliboðum til ungs fólks sem nú situr í súpunni, ætti nánast að flokka undir refsivert athæfi eða að minnsta kosti fullkomið ábyrgðarleysi. Ef einhvern veginn er hægt að snúa þessari þróun við þá gerið það STRAX! Nema ef stefnan er sú að fjölga eigi á biðlistum félagsbústaða.
Hingað var ég kominn í pistlinum, sem ég ætlaði að leiða að því að skynsamlegasta fjárfestingin væri í ljóðabókum, en þá greip lögreglan inn í atburðarrás orðanna með barsmíðum sem gefa mun ráðherrum ríkistjórnarinnar færi á að segja við kollega sína í öðrum löndum, við höfum alveg sambærileg vandamál og þið, við þurfum líka að berja fólk, og tindátaleikurinn getur haldið áfram, sérsveitir, hjálmar, skildir, úðunarbrúsar, you name it, en allt fæst þetta í dótabúð valdsins sem býr sig undir grimmdarlegri stéttaskiptingu en nokkru sinni fyrr, niðurbrot velferðarkerfisins og einmitt með aðstoð þeirra flokka sem byggðu það upp. Svona er heimurinn skrýtinn!
Hafi lögreglan ætlað hrista af sér slyðruorð, vegna hvatningar frá þingmönnum, misskildi hún algjörlega hlutverk sitt. Hún átti að halda áfram að gefa bílstjórum í nefið og gera slíkt hið sama næst þegar náttúruverndarsinnar vilja koma boðskap sínum á framfæri, þó ekki viti ég hve mikið þeir eru fyrir neftóbak. Í leiðinni hefði mátt draga tilbaka kærur á hendur Ólafi Páli og öðrum náttúrubörnum. Við viljum lögreglu sem býður í nefið, ekki áhættuleikara með úðunarbrúsa og einhvers konar kokkahúfur á höfðinu. Af hverju voru úðunarbrúsamennirnir, fremsta víglína, ekki með hjálm, bara baksveitin?
En gert er gert. Ég ætla ekki að taka afstöðu til einstakra krafna bílstjóranna. Hitt vil ég benda á að reiði þeirra er reiði sem kraumar undirniðri í öllu þjóðfélaginu og er tákn um dáðleysi stjórnvalda. Sturla segir, þeir eru búnir að vera athuga málin í þrjú ár og eftir standa Sturla og félagar með tuttugu tonna mótmælaspjöld. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd virðist skipuð einhverju værukærasta liði sögur fara af. Þeir vísa öllu frá sér, ekki síst loforðunum sem þeir gáfu og dettur ekkert í hug nema að leyfa innflutning á svínakjöti og heyja stríð við bændur.
Er nema von að Bjartur í Sumarhúsum vakni og bílstjórarnir á Suðurlandsveginum eru að vekja hann. Brátt verður tími þjóðarsáttar fyrir bí, en það er ekki út af bílstjórunum, það eru stjórnvöld, þau vilja einfaldlega ekki sættast við fólkið í landinu ... og að því sögðu lofa ég pistli þar sem ég sýni fram á að fram á að ljóðabækur eru besta fjárfesingin ... Ég mæli með þessari til að byrja með ... heildarsafni á ljóðum Ísaks Harðarsonar.
...
Við eigum tvö góð orðtök á tungu okkar sem í fljótu bragði virðast stangast á. Annað segir: Heimskur er sá sem heima situr, en hitt er Heima er best. Þetta þýðir í rauninni að við eigum að fara burt og koma svo aftur, eða með öðrum orðum: Við eigum að vera opin fyrir heiminum en rækta okkar eigin garð. Þannig kemur heimurinn til okkar og við til hans.
Margir líta svo á að alþjóðavæðingin hafi fokkað þessu upp, að menn séu hvorki heima hjá sér né að heiman, en í gegnum tíðina höfum við litið svo á að við eigum að vera sjálfstæð en í stöðugum samskiptum við umheiminn. Nú virðist hins vegar sjálfstæðið hætt að skipta máli af því að það sé hvort eð er horfið.
Bjartur í Sumarhúsum sagði að sjálfstæði væri betra en kjöt. Því virðist nútíminn algjörlega ósammála. Nú má nánast gefa allt fyrir ódýrar matvörur þó flestir virðist hafa nóg að éta að því er best verður séð í hjáveituaðgerðum og öðru. Aumingja krónan, hún er einsog Bjartur í Sumarhúsum, nema ekki jafn stolt, og erfitt um að segja hver sé Rauðsmýrarmaddaman, seðlabankastjóri eða evruspekingarnir með erkibiskupsboðskap á vörunum.
Hugmyndir Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, innblásnar af þýsku rómantíkinni og frönsku byltingunni, hafa ekkert gildi lengur ef við getum étið á okkur gat af innfluttu svínakjöti og þegið um leið reglugerðir um allt milli himins og jarðar. Þetta er veruleikinn, en spurningin er, hvað finnst okkur um hann? Hver er við völd? Er það feiti þjónninn eða barði þrællinn?
Fyrir nokkrum árum stóð til að Færeyingar hlytu fullt sjálfstæði. Deilt var um aðlöðunartíma. Færeyingar vildu hafa hann fimmtán árum lengri en danska stjórnin vildi veita þeim. Nú kunna að hafa legið ýmis rök fyrir því, en samt var þetta skrýtið. Ég fór að hugsa, hvað hefðu íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sagt við þessu? Nú eða Bjartur í Sumarhúsum?
Kannski eru Færeyingar bara svona vel upp aldir, að þegar þeim er boðið að verða sjálfstæðir strax vilja þeir fá að vera ósjálfstæðir fimmtán árum lengur. Er það ekki bara staðreynd að nú er feiti þjónninn við völd og allir hugsa með hans höfði. Þannig er búið að valta yfir Bjart í Sumarhúsum og allar hugmyndir um sjálfstæði eru afgreiddar sem fortíðarhyggja. Í samræmi við þetta eru jafnaðarmenn orðnir að einskonar burðardýrum fyrir frjálshyggjuna. Þeirra hlutverk er að halda hugmyndafræðinni að fólki, til dæmis í kosningum, en framkvæma síðan hreina og klára hægristefnu. Síðan taka þeir út refsinguna í kosningum og næsti tekur við.
Því segi ég einsog Halldór Laxness, skapari Bjarts í Sumarhúsum, eigum við ekki að lyfta umræðunni á hærra plan? Skiptir til dæmis sjálfstæðið okkur máli? Viljum við búskap? Viljum við byggð? Ætlum við bara að vera kotungar hjá kóngi og smjaðra fyrir skriffinnum? Á bara að svifta öllu burt með snyrtilegum reglugerðum og skjóta málinu markaðarins sem mállaus vinnur sín verk? Hvar stöndum við sem hreiðrað höfum um okkar á þessar hrjótrugu hundaþúfu undir Grænlandsjökli? Jú, heimskur er sá sem heima situr en heima er best.
...
Skilabo� n�mer fimm
Ég las eitt sinn úr verkum mínum í Englandi. Að upplestri loknum reis kona úr sæti sínu og sagði: "You seem to have a very English sense of humor." Konan var að hrósa mér. Þegar Englendingar tala um enskt skopskyn meina þeir gott skopskyn. Samt sýnir þetta hrokann, hvernig hann er vaxinn inn í tungmálið, þegar hin fornu stórveldi telja jafnvel kímnigáfuna séreign sína.
Í annað sinn las ég upp fyrir Zulu menn í borginni Durban í Suður-Afríku. Ég las upp á ensku og allt var um leið þýtt yfir tungumál þeirra. Zulu mennirnir hlógu að öllu sem ég sagði, hvort sem þeim þótti ég svona spaugilegur eða fyndinn, en enginn þeirra sagði: "You seem to have a very Zulu sense of humor."
Við búum á hnetti. Hann er einsog kúla í laginu. Þess vegna er engin miðja. Miðjan er undir iljum sérhvers jarðarbúa. Því segi ég: Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Ef þessari eðlilegu landafræði væri fylgt byggjum við í betri heimi og þá væru voldugar og vanmáttugar þjóðir ekki til. Þá væri engin ástæða til að ráðast inn í lönd og slá eign sinni á olíulindir og önnur náttúrugæði.
...
Um daginn sá ég heimildarmynd um Almeria-svæðið á Suður Spáni. Þar er framleiddur þriðjungur af vetrarneyslu Evrópubúa á grænmeti og ávöxtum. Í endalausri þyrpingu gróðurhúsa vinna 80.000 innflytjendur í andrúmslofti sem búið er að eyðileggja með skordýraeitri. Innflytendurnir eru á skítakaupi og eru margir orðnir vitskerrtir út af aðbúnaðinum. Þetta er ekkert annað en þrælahald þó það heiti eitthvað annað. Þetta er ein skýringin á því hvernig hægt er að halda matvælaverði niðri í Evrópu og sá kraumandi pottur sem margir Íslendingar vilja svo ólmir komast í og bera einmitt fyrir sig þessu, matvælaverðinu.
En ég segi: Byrjum að taka til heima hjá okkur. Lækkum raforkuverð til gróðurhúsabænda og virkjum líka orkuna sem í okkur býr. Hugsum um gæðin, ekki bara magnið. Notum orkuna til að bæta hag heimilanna í stað þess að gefa hana sléttgreiddum fulltrúum peningavaldsins. Tökum til. Við getum ekki gefið það af okkur sem við höfum ekki öðlast sjálf.
Það var nefnilega ekki síður fróðlegt að heyra eigendur búgarðanna réttlæta athafnir sínar. Jú, sögðu þeir, þeir voru í samkeppni á markaði og kepptu við markaði þar sem enn meira þrælahald tíðkaðist, í Mið-Ameríku og Afríku. Þetta eru nákvæmlega sömu röksemdirnar og fulltrúar íslenska kvótakerfisins nota þegar heilu byggðalögin eru skilin eftir tómhent.
Eða einsog segir í ljóðinu: Hinn frjálsi maður er ekki lengur veginn með vopnum, ekki höggvinn í herðar niður eða brenndur á báli. Þess í stað er honum svipt burt með snytrilegri reglugerð og málinu skotið til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk.
...
Fólk er að drukkna í hugfræðihugtökum sem allir nota en enginn skilur. Samanber allar fjárfestingarnar. Einn kaupir annan og annar kaupir hinn, og þeir heita jafn fjölskrúðugum nöfnum og jólasveinarnir.
Einhver græðir glás af seðlum og allir eru svaka ríkir á meðan ellilífeyrisþegarnir hnipra sig í kompum, fólk gengur heimilislaust um götur og lægstu laun eru svo lág að enginn trúir að nokkur sé á þeim. Jafnvel jafnaðarmenn yppta öxlum þegar þeir heyra verkalýðinn nefndan á nafn. Hann hafa þeir ekki séð í mörg ár.
Hér eitthvað sem rímar ekki. Eða réttara sagt: Þetta er heilmikil hagfræði. Á meðan er heiminum huggulega deilt upp í Múslimi og Bushlimi. Við erum Bushlimir, í stríði með vestrænum Bushlimum gegn múslimum sem vilja taka af okkur tjáningafrelsið og lýðræðið; og sjálfsagt líka bílana, húsin og konurnar.
Stríðsreksturinn í Írak snýst um að moka undir eina fáránlegustu yfirstétt sögunnar, þá amerísku, en sjálft er stríðið háð í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum og fyrir frelsi og lýðræði. Hvernig fólkið sem þjáist undan þessu öllu á að tengja þjáningar sínar við baráttuna fyrir frelsi gengur auðvitað hvergi upp nema í málflutningi stríðsherranna.
Málið vandast þegar haft er í huga að óvinurinn er kominn inn um hliðið. Hann skúrar gólfin, hann flakar fiskinn, stendur við færibandið, sópar göturnar, afgreiðir í búðinni og þjónar til borðs á veitingahúsinu. Ég ætla ekki að rifja upp sögu Rómaveldis, en hrundi það ekki smám saman? Tók það ekki ein þrjúhundruð ár? Voru rómversku keisararnir ekki sífellt að berja niður uppreisnir í skattlöndunum?
Og hvað með Jesús Krist? Var hann ekki hættulegur uppreisnarmaður, jafnvel hryðjuverkamaður, í augum yfirvalda, andlegra jafnt sem veraldlegra? Hvað þætti sannkristnum Bandaríkjamönnum um mann sem myndi ryðjast inn í kauphallirnar og orga á fjárfestana sem þéna árslaun verkamanna á meðan þeir dotta í hádeginu?
...
Æðsta viðurkenning sem skáldum og vísindamönnum hlotnast eru Nóbelsverðlaunin. Þau eru sjötíu milljónir og eru vanalega veitt fyrir einstakt ævistarf, enda verðlaunahafarnir oftar en ekki gamlir menn og hoknir. Öflugustu fjárfestarnir hala inn fimm- til sex Nóbelsverðlaun á ári, sé þetta mælt í peningum, lífeyrissjóðir leika matador og með hugarflugi, sem enginn skilur, margfaldast eignir manna. Ef þeir hætta í vinnunni hverfa þeir á braut með fjárlögin.
Nú eru kjarasamningar lausir og auðvitað fer allt á annan endann ef lægstu laun hækka um fimm þúsund krónur. Ef ég væri verkalýðsforingi myndi ég spyrja: Búa fátækrahverfin innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Hvað verður um umhyggjuna í öllu ríkidæminu?
Fátækt er heldur ekki endilega rétta orðið yfir ellilífeyrisþegana í kompunum, útigangskonurnar með sprittið og allt félagslega botnfallið. Eymd er betra orð og þessi eymd er allra, ekki bara þeirra sem fyrir henni verða. Hún er fátækrahverfið innra með okkur.
...
Fyrir rúmri viku var dagur íslenskrar tungu. Það getur enginn haft neitt á móti því, þó það sé skrýtið að henni sé aðeins helgaður einn dagur. Samt er það ekkert skrýtið þegar varaformaður næst stærsta stjórnmálaflokksins telur að best sé að við tölum ensku og íslensku til skiptis.
Annar stjórnmálamaður berst fyrir því að áfengi sé selt í matvörubúðum. Gott á hann. Ímyndum okkur að áfengi væri bannað en hass væri löglegt og hass selt í ríkinu. Þá myndi Sigurður Kári vera að berjast fyrir því að hass væri selt í grænmetisdeildum búðanna. Gott á hann. Alla vega væri röksemdafærslan sú sama.
Mér er svo sem sama hvar Sigurður Kári kaupir sitt bús og mín vegna má Ágúst Ólafur tala ensku á fundum Samfylkingarinnar. Þar er hvort eð töluð einhver evrópska. Orðið verkalýður heyrist ekki lengur og ef einhver notar orðin auðvald eða arðrán líður yfir hálfan flokkinn.
Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessum málum, hvorki áfengiskaupum Sigurðar Kára né tungutaki Ágústs Ólafs. Mín vegna mega þeir taka tappa úr flösku og tala saman á ensku.
Það sem ég er að velta fyrir mér eru hinar sígildu setningar Arthurs Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Getur verið að orðin, verkfærin sem við notum til að tjá okkur, ráði í raun hvað við segjum? Erum við hugsuð fremur en að við hugsum? Áður fyrr byggðist vald manna ekki síst á því leiknir þeir voru með orðin. Hinn menntaði maður hafði orðin á valdi sínu. Stjórnmálamenn voru ræðuskörungar, ferskeytlan hvöss sem byssustingur og þar fram eftir götum.
Nú á dögum segjum við ekki um stjórnmálamanninn: "Hann er flugmælskur." Þess í stað segjum við: "Hann kemur vel fyrir í sjónvarpi."
Hvernig hefði Egill Skallagrímsson komið fyrir í sjónvarpi? Hvernig væri hægt að markaðssetja hann? Væru ljóð hans vinsæl? Hér á árum áður lásu stjórnmálamenn Íslendingasögurnar og héldu síðan glaðbeittir út í kosningabaráttuna. Nú fara þeir aftur á móti í litgreiningu og mæta fyrir framan upptökuvélarnar einsog tískan býður.
Geta þeir ekki sagt einsog Arthur Rimbaud: "Ég er ekki ég, ég er annar." og "Ég hugsa ekki, ég er hugsaður."
Því endurtek ég bara upphafsorð mín: Þú sem býrð með eyju í hjartanu og víðáttur geimsins stétt undir iljunum: Réttu mér norðurljósin! Ég ætla að dansa við unglinginn sem heldur á stjörnunum. V ið roðflettum myrkrið og afhausum eymdina.
Og verði ég sendur til útlanda að semja við skrifstofubáknið mun ég segja á íslensku: Því miður, herra framkvæmdastjóri, ég hef ekkert að bjóða í þessum samningaviðræðum nema þrjú tonn af kokteilsósu, örfá eintök af dýrafræði Jónasar frá Hriflu og allar hljómplötur Árna Johnsens.
...
Nú vil ég biðja þá sem í óskammfeilni sinni gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvermber árið 1932 að vera svo vingjarnlega að snúa við og ganga hann upp.
Þessar setningar komu til mín hér um árið þegar fjölmiðlamenn vildu í óða önn gerast skriftarfeður fyrir aflóga sósíalista. Þeir áttu ekki bara að fagna hruni úreltra þjóðfélgaskerfa heldur í raun að játa að öll réttindabarátta almennings, verkalýðsbaráttan, hafi verið misskilningur. Ef þeir biðu afsökunar á axarsköftum fortíðarinnar yrði litið á mál þeirra mildari augum af lögregluyfirvöldum frjálshyggjunnar.
Þetta gekk svo nærri mönnum að meira að segja hinum galvaska leiðtoga vinstra manna Steingrími J. vafðist tunga tönn í síðustu kosningabaráttu þegar hann var spurður að hvort hann væri sósíalisti. Búið er að hlaða slíkri neikvæðni á orðið, þó það þýði í raun bara jafnaðarmaður.
Frjálshyggjan, sem nú herjar á velferðarkerfið, vann því ekki aðeins kalda stríðið, hún vann einnig stríðið um tungumálið. Lengi vel hefur enginn opnað svo kjaftinn í sjónvarpinu að hann segi ekki: "Ég held að samkeppni sé af hinu góða," og það má eflaust til sanns vegar færa, en er ekki líka samvinna af hinu góða og samhjálp? Hvernig hefði Jesús litið á málin?
Nú er ég ekki á móti einkarekstri, - á mörgum sviðum er eina vitið - en af hverju verður allt vitlaust þegar fjölskyldu- og húsdýragarðurinn býður barnafjölskyldum upp á jólahlaðborð á viðráðanlegu verði? Eftirlit með tannhirðu barna er tekið úr skólum, og tannheilsa þeirra hrynur á nokkrum árum, allt af því að einhverjir segja að hið opinbera eigi ekki að vera að vasast í hinu og þessu.
Það er sagt að Bandaríkin hafi aldrei borið sitt barr eftir einkavæðingu Regantímabilsins. Heilbrigðiskerfið var hreinlega lagt í rúst, geðsjúkum var vísað út á götur og meðferðarstofnunum lokað. Þetta ætti að kenna okkur að standa vörð um meðferðarúrræðin sem hér finnast. Það getur verið dýrt að spara á þeim sviðum. Oft er betra að spyrja sig hvað kostar að gera hlutina ekki.
Nú eru kjarasamningar í aðsigi, og lægstu laun eru svo lág að þau duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum, en þjóðfélagið virðist yppta öxlum, og hugsa svipað og drottningin þegar fólkið mótmælti forðum, og karfðist brauðs, en þá sagði drottningin: Fyrst fólkið á ekki brauð, af hverju borðar það ekki kökur?
Þetta leiðir hugann að undarlegum myndum sem skaut upp í fréttatíma sjónvarpsins fyrir rúmum áratug. Þá voru l angferðabílstjórar í verkfalli og stóðu fyrir framan rútubíla með úðunarbrúsa og úðuðu á rúður þeirra og hleyptu vindi úr dekkjum þeirra. Í blálýstum stofum landsmanna birtust langferðabílstjórararnir sem pörupiltar og götustrákar, en talsmenn vinnuveitenda böðuðu sig í samúð myndavélanna.
Ég man að unglingar víðs vegar um landið héldu að verið væri að sýna úr nýrri kvikmynd. Í þeirra augum var þetta ekki veruleiki fyrr en fulltrúar vinnuveitenda birtust á skjánum. Þá rifjaðist upp fyrir mér að á mínum unglingsárum geisuðu oft harðar vinnudeilur.
Síðan hefur verkalýðshreyfingin orðið stærsti sumarbústaðaeigandi landsins, með lífeyrissjóði sem spila bingó og kaupa vonlaus fótboltalið, enda halda sumir unglingar að Alþýðusamband Íslands sé ferðaskrifstofa. Ekki skal ég skal ekki tjá mig um stöðu kjaramála, en útkoman er þjóðarsátt full af sumarbústöðum og lífeyrissjóðir sem fjármagna matador auðmanna á meðan einstaka hópar berjast einir í kuldanum, einsog langferðabílstjórarnir forðum, eða berjast bara ekki neitt.
Og það sem verra er: Öllum er sama, því ekki er lengur nein samstaða, þar sem öllum er ætlað að keppa, og því segi ég: Hvort sem sagan er línurit eða súlurit í auga hagfræðingsins á skjánum er heimurinn kartafla í lófa guðs. Eða einsog amma mín sagði: Fólk verður leiðinlegt ef það trúir ekki á neitt skemmtilegt. Þess vegna kýs ég að trúa á samstöðuna, hvar sem hún finnst, og segi við þá sem gengu niður Laugaveginn einhvern tíma í nóvember árið 1932, verið stolt af því.
...
Vinur minn, sem býr suður með sjó sagði við mig þegar ég heimsótti hann í fyrra: Eitt sinn voru þrjúhundruð bátar við höfnina en þrír að vinna í bankanum. Nú eru þrír bátar við höfnina en þrjúhundruð að vinna í bankanum.
Annar vinur minn og jafnaldri, fæddur vestur við Breiðafjörð, segir svo frá að strax þá um vorið hafi fyrsta lambið hans fæðst. Það tíðkaðist í sveitinni að börn fengu lamb á hverju vori.
Það átti að vera trygging fyrir framtíðina, sem sé, að þegar börnin væru komin á legg hefðu þau eitthvað fé milli handanna. Amma þessa vinar míns sá til þess á hverju hausti að leggja andvirði hvers lambs sem slátrað var inn á bankabók í kaupstaðnum.
Amma hans sagði að þegar hann yrði stór gæti hann keypt sér íbúð eða bíl fyrir peningana. "Auðvitað trúði ég ömmu minni," segir vinur minn, "hver gerir það ekki? Ekki ljúga ömmur."
Svo liðu árin. Alltaf bættust ný ærgildi inn á bankabókina. Það kom að því að vinur minn flutti til borgarinnar og tók bílpróf. Hann hélt rakleitt í bankann og ætlaði að taka peningana út úr bankabókinni og kaupa sér bíl.
Það urðu heldur betur vonbrigði þegar hann komst að því að lítið sem ekkert var inni á bankabókinni. Öll lömbin sem samkvæmt hagspekinni hefðu átt að ávaxta sig voru andvirði tveggja lambalæra úr frystikistu kjörbúðarinnar í hverfinu.
Þetta var skrýtið, því ekki ljúga ömmur, en það gera bankastjórar ekki heldur. Þegar vinur minn spurði bankastjórann hvað hefði orðið um lömbin hans sagði bankastjórinn að verðbólguúlfurinn hefði étið þau. Þá sakaði hann bankann um sauðaþjófnað og fór fram á að þeir skiluðu lömbunum en var fyrir vikið sakaður um dónaskap og hent út.
Þessi vinur minn dró þann lærdóm af þessum óförum sínum að skipta ekki frekar við banka, og hefur hann að mestu leyti staðið við það. Hvað mönnum finnst um það skiptir ekki máli.
En spurningin er hvort hér sé ekki hagkerfi okkar í hnotskurn og það sé nákvæmlega þetta sem er að gerast á hinum svokölluðu fjálmálamörkuðum. Sparifé fólks og fjárfestingar gufa upp og verða að engu, lömbunum hefur fækkað í stað þess að fjölga, en við sem höfum setið heima og skiljum hvorki úrvalsvísitöluna né kvótakerfið hljótum að spyrja, í hvaða formi endurtekur þessi saga sig næst?
Kannski segjum við bara einsog Megas: Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna frímerkjum.
...
Þegar ég fór að hugsa um þennan pistil minn í upphafi vikunnar sá ég af gefnu tilefni fyrir mér heilu hnífasettin í bökum framsóknarmanna, en nú gengur Framsóknarflokkurinn undir nafninu fatahreyfingin, og vita ekki hvort þeir eiga að halda sig á vesturbakka eða austurbakka stjórnmálanna, en hafa samt hafnað á tjarnarbakkanum.
En einmitt þennan sama dag og ég fór að hugsa þetta þá hrundi borgarstjórnin og ég sat eiginlega uppi með Sjálfstæðisflokkinn og einherjana í Valhöll, í senn þvoglumælta og baráttuglaða, en þeim hafði einmitt tekist að véla til sín umhverfisvænan lækni, Ólaf F. Magnússon, sem eitt sinn bjargaði lífi vinar míns og mér er því ákaflega hlýtt til. Það gerði hann með skjótum og fumlausum höndum læknisins og hefur ávallt borið með sér þokka manngæskunnar, og eflaust fatað sig án hjálpar.
En þegar kvölda tók stóðu þeir þarna hinir nýju ráðamenn, fölir og gráir, einsog stjórnmálamenn úr ráðstjórnarríkjunum gömlu, já nánast einsog Jaruselsi þegar hann var nýbúinn að setja herlögin í Póllandi eða kommúnistarnir þegar þeir ætluðu að eiga sitt Comeback í andaslitrum Sovétríkjanna, og var afar viðeigandi að þetta væri á Kjarvalsstöðum því athöfnin eða krýningin var einsog mynd á sýningu, eða leikþáttur, saga sögð af bjána, full af mögli og muldri, og merkir ekki neitt, svo gripið sé til Shakespears.
En nú er ég bara að tala um útlit og fas, ég er að rýna í myndina, jakkafötin sem þeir eflaust hafa greitt úr eigin vasa, gagnstætt framsóknarmönnum sem hafa einfaldan smekk og velja aðeins það besta, enda nýkomnir á mölina til að að sanna svo rækilega að þar eigi þeir heima, líklega með greiðslukort S-hópsins í vasanum, en á þeim bæ munar menn lítið um nítján pör af sokkum eftir að hafa fengið heilan banka í þjórfé og látið Elton John syngja sín alfegurstu lög.
Þetta var á Kjarvalsstöðum, Kjarklambrastaðatúni, einsog Megas kallaði það, en þar las Matthías skáld eitt sinn ljóð sín, og þá voru kommarnir illkvittnir og kölluðu hann Exile on Main Street, en nú eru aðrir tímar og ljóðin láta vel í eyrum allra og kommarnir bugta sig og beygja fyrir Matthíasi og ljóðum hans.
Og kannski hafa þau svifið einsog ský yfir höfðum borgarstjórnarhópsins, sem greinilega hafði skilið hnífasettin eftir heima, og fallist í faðma við lækninn, sem nú gaf þeim resept upp á framtíðina, en ég hef varla sleppt þessu orði, resept upp á framtíðina, þegar hún er orðin ótrygg, í spennitreyju, einsog ávallt í gömlu Ráðstjórnarríkjunum, sem frjálshyggjumennirnir virðast elska í laumi, í samræmi við þá kenningu að harmleikurinn endurtekur sig sem skrípamynd. Því héldu forsöngvararnir tveir varla lagi á meðan undirleikarnir stóðu fyrir aftan þá einsog hnípin þjóð í vanda. Um þetta vitnðu ljósmyndir strax daginn eftir.
Á meðan þessu öllu fór fram mátuðu framsóknarmenn sín keisaraklæði í Norræna húsinu, og hvergi sáust hnífar og frú Makbeð ekki tiltæk, hvað þá marktæk eða róttæk, frekar en þessi kyndugi flokkur sem fyrir löngu er búinn að gleyma erindi sínu í allri jakkafatavæðingu frjálshyggjunnar. Hann er fyrir löngu búinn að kokgleypa allt sem hann á ekki að gera, steingleyma öllu er varðar jafnvægi í byggðum, tengsl manns og náttúru, enda arkítekt þess kvótakerfis sem leikið hefur byggðir landsins grátt, og því mun þessi flokkur, Framsóknarflokkurinn, aldrei komast úr sporunum fyrr en hann hefur tekið til í rústum fortíðarinnar, gert upp við kvótakóngana, kauphallarbraskarana og S-hópana.
Væri til dæmis hægt að fara fram á afturvirka eignaupptöku og skila ránsfengnum? Væri það hugmynd? Með öðrum orðum, fara úr jakkafötunum og í vinnuskyrturnar, setjast upp á trakorana, taka fram handfærin og leggja frá sér hnífasettin og illkvittnina og stærilætið sem hreiðrað hafa um sig í spegilhöllum hégómans.
...
Markaðurinn á að vera frjáls, en ekki fólkið. Það er boðorð dagsins. Það þarf meiri peninga fyrir þá sem eiga nóg af þeim. Einhver fékk þrjúhundruð milljónir fyrir að byrja í vinnunni. Kannski ættu bankastjórarnir að semja fyrir láglaunafólkið sem er tíu ár að vinna sér inn mánaðarlaun þeirra. Þeir gætu fengið árangurstengda þóknun svo eitthvað sé í boði.
Ef ríkisstjórnin væri bolti myndi ég sparka henni út af. Vandinn er bara sá að þá fengi hún horn og skoraði glæsilegt mark því stjórnarandstaðan er svo léleg í vörn. Þannig er staðan: Gamlingjar lokaðir inni vegna elliglapa en unglingar á lyfjum vegna æskufjörs. Elvis er enn í hernum og vinir mínir, stjórnleysingjarnir, hafa skráð sig í lögregluskólann. Meira að segja Bob Dylan er búinn að gleyma öllu sem hann sagði en hann sagði það samt og þar við situr hvað sem hann segir.
Já félagar, látið dæluna ganga, það vantar ekki bara ljóðlist í lífið, heldur líf í ljóðið, enda hefur ekkert frést af Johnny Rotten síðan hann opnaði fasteignasölu í Los Angeles. Við sendum okkar bestu kveðjur héðan úr hagvextinum og vonum bara að húsnæðismarkaður hugans sé ekki síðri þar en hér, og þú í góðum málum enn á móti hræsni, enn á móti lýðræði, enn á móti skrifræði og öllu sem endar á i.
...
Það reynist mörgum erfitt að viðurkenna hverjir þeir eru og fyrir hvað þeir standa. Engum geðjast að þeirri tilhugsun að vera álitinn óréttlátur og svikull, jafnvel lyginn, og öllum finnst leitt þegar hugsjónir þeirra hrynja til grunna einsog spilaborg. Samt er þetta oft niðurstaðan af athöfnum okkar og ekkert skrýtið að við þrætum fyrir hana og reynum að sanna með alls kyns undanbrögðum að hún sé röng. Þá segjum við að þetta sé allt öðrum að kenna, að þeir hafi átt þátt í klúðrinu og séu ekkert skárri en við, jafnvel verri. Við höfum borið niðurstöður okkar undir lögmenn, fyrrverandi lögmenn og jafnvel mætt á miðilsfund með framliðnum lögmönnum, en allt kemur fyrir ekki þegar keisarinn er að lokum flæktur í eigin lygavef og stund sannleikans rennur upp.
...
Í Sovétríkjunum var marxisminn hluti af valdakerfinu, einhvers konar þjóðfélagsleg ríkistrú, og slík kredda að hann var settur upp í orðabók þar sem fyrirbæri mannlífsins voru skilgreind í stafrófsröð. Þetta átti auðvitað ekkert skylt við marxisma eða blómaskeið hans um og upp úr 1968. Á þeim tíma var gefið út álíka mikið af bókum um marxisma og nú á dögum er gefið út um matreiðslu og megrun. Heilar deildir hjá bókaforlögum sérhæfðu sig í útgáfu slíkra rita, enda var haft eftir Willy Brandt, að sá sem ekki sé marxisti um tvítugt hafi ekkert hjarta, en sá sem sé það enn eftir fertugt hafi engan heila.
Áhrif marxismans voru gífurleg, á hugvísindi, bókmenntir, kvennabaráttu, já á allt nema verkalýðinn sem ætlað var að breyta heiminum. Sá marxismi sem breiddist út um Vesturlönd var Sovétmönnum engan veginn að skapi. Þvert á móti vildu þeir friðsamlega sambúð og hana vildu hægrisinnaðir frjálshyggjumenn líka. Þeir gáfu andstöðuöflunum engan gaum. Það gerðu frekar litlir hópar til vinstri, stjórnleysingjar af ýmsu tagi. Þessir hópar upplýstu fólk um andstöðuna, skrifuðu greinar, héldu fundi og gáfu út bæklinga. En fáir mættu á fundina og salan á bæklingunum var jafn treg og hjá Jóhannesi Birkiland forðum.
Þessir hópar voru í tenglsum við háskólaprófessora sem gerðir höfðu verið að götusópurum, verkalýðsleiðtoga sem unnu við gluggaþvott og landflótta baráttumenn; en það var talað fyrir daufum eyrum. Það var ekki fyrr en múrarnir hrundu að allir vildu Lilju kveðið hafa. Þegar efnt var til sigurhátíða eftir fall alræðisins stóðu baráttumennirnir oft einsog illa gerðir hlutir á meðan salirnir fylltust af ungum markaðshyggjumönnum sem skáluðu, líklega hver fyrir örðum, enda rann upp sú efnishyggja nútímans sem nánast er lögboðin sjálfselska, þar sem græðgin er göfug og heitir flottum nöfnum, en það er einmitt hún sem nú er að fara yfir öll sín strik.
Vefurum fjármála hefur vissulega tekist að blekkja keisarann, en ekki börnin og þannig verður það alltaf, því ekkert varir að eilífu, enginn stóri sannleikur, enginn múr. Öðru hverju eru jafnvel asnar klyfjaðir gulli gerðir afturreka, og má það heita von, ljós í myrkri, stund sannleikans, tákn þess að tímarnir breytast.
...
Við höfum öll verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Svona hefur lífsspeki okkar samfélags hljómað undanfarin ár. Það hefur jafnvel verið rætt um að finna öfundargenið, og þá helst í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem tilraunin hófst, og fólk lagði sparifé sitt en svo var allt lok lok og læs og spariféð horfið, en genið ófundið, en sjálfsagt hafa Danir plantað því, jafn illkvittnir og þeir eru í garð bankanna.
Þessu höfum við trúað á meðan eignir hafa verið færðar frá almenningi til fjármálamanna, bankar seldir á spottprís og yfirmenn skammtað hver öðrum kaupauka fyrir eitthvað sem enginn skilur. Nú þegar syrtir í álinn á almenningur að hlaupa undir bagga og taka við tapinu. Ef þeir fengu kaupauka þegar allt var í plús eiga þeir þá ekki að skila honum þegar allt er í mínus?
Uppi eru kenningar um að bankarnir hafi hagnast á falli krónunnar, að þeir hafi keypt gjaldeyri, væntanlega af sjálfum sér, og grætt á því þegar krónan hefur lækkað. Á sama tíma hefur verkalýðshreyfingin rétt út sáttarhönd og við lifað á tímum þjóðarsáttar sem þýðir að almenningur hefur látið allt yfir sig ganga. Þá myndi einhver segja að kominn væri tími til að dusta rykið af Kommúnistaávarpinu.
En því er ekki að heilsa. Aðeins einn maður á Íslandi tekur Kommúnistaávarpið alvarlega og það er Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann virðir ekki eignaréttinn, ekki höfundarrétt Halldórs Laxness. Það þarf ekki að lesa lengi í skýrslu Helgu Kress til að sjá að hér er um hreinan ritstuld að ræða. Eina leið Hannesar til að réttlæta hann er að segja að eignarétturinn sé einskis virði. Þar getur hann borið fyrir sig gamla stjórnleysingja einosg Proudhon, því Karl Marx virti einstaklingbundna snilligáfu mikils og löfsöng ritverk höfunda á borð við Balzac.
Ef við leyfum okkur að líkja ritverkum Halldórs Laxness við kjörbúð hefur Hannes Hólmsteinn Gissurarson ekki bara hnuplað einum lifrarpylsukepp eða kexpakka, heldur mætt með heilan sendibíl að næturlagi og mokað út úr búðinni.
Ef Hannes væri stjórnleysingi, einsog þeir sem leggja undir sig hús og trufla samkomur fjálmálafursta með klút fyrir vitum, gæti hann sagt: Ég er á móti eignaréttinum. Höfundar eiga ekkert í sínum bókum. En Hannes hefur verið talsmaður fjármagnsfrelsis, einkaeignaréttar og þá væntanlega höfundaréttar.
Þessum spurningum þarf Hannes að svara og líka háskólinn og Sjálfstæðisflokkurinn, því í ljósi alls þessa, hver er afstaða Sjálfsætðisflokksins til eignaréttarins? Þetta vil ég sem borgari þessa lands og höfundur minna bóka fá að vita eða get ég búist við að hitta eigin verk undir nafni annars höfundar?
...
Við þekkjum öll friðarboðskap John Lennons í laginu Imagine, að við eigum ekki að láta hugmyndir um himnaríki eða helvíti stjórna okkur, og ekki landamæri, og þá er engin ástæða til að drepa, og enginn málstaður til að deyja fyrir. ... Já kallið mig bara draumóramann, segir John Lennon, but I am not the only one, ég er ekki sá eini ... Friðarboðskapur Chaplins í lok Einræðisherrans er ekkert ósvipaður og fleiri mætti kalla til leiks.
En John Lennon var ekki bara tónlistarmaður með boðskap, hann var líka orðheppinn maður. Til að mynda á hann að hafa sagt í hálfkæringi þegar hann frétti af dauða Elvis Presley. "Elvis, dó hann ekki þegar hann gekk í herinn?" en það var sautján árum áður en hann dó. Blessuð sé minning hans og Lennons og Chaplins.
Af hverju er ég að rifja þetta upp? Jú, mér verður hugsað til utanríkisráðherrans okkar, því óneitanlega hlýtur mikið að hafa gerst frá því að Ingibjörg Sólrún mótmælti veru okkar í NATO, gat sungið Imagine með góðri samvisku og tekið undir friðarboðskap Chaplins, og þar til hún nú flýgur á einkaþotu til hérráðsfundar í Búkarest og samþykkir tillögur Bandaríkjanna um eldvarnarhjúp yfir Evrópu vegna þess hvað Íranir eru hættulegir að mér skilst.
Í skáldsögu minni Englar alheimsins orðar Páll þetta svo: Ég er Reykvíkingur, - reykjandi víkingur - fæddur á fæðingardeild Landspítalans við Hringbraut þann 30. mars árið 1949, sama dag og Ísland gekk í NATO. Ég ætla samt ekki að fara að líkja mér við NATO, hernaðarmætti þess við aflleysi mitt, höfuðstöðvum þess við Klepp eða öryrkjablokkina. Hinu er þó ekki að neita að rúmum fjörutíu árum eftir fæðingu mína, þegar ég tók pokann minn og yfirgaf þessa jarðvist, stóð NATO einnig á tímamótum. Allt sem þetta volduga hernaðarbandalag hafði barist gegn var hrunið og við því blasti ekkert nema einmanaleiki þess sem er reiðubúinn að berjast en hefur engan til að berjast við. ...
Nú spyr ég: Er þetta ekki kjarni málsins? Var einhver þörf fyrir NATO eftir að kalda stríðinu lauk? Þetta má aldrei ræða, en samt er NATO aldrei öflugra en nú um stundir. Það stækkar í allar áttir. Hernaðarmannvirki rísa upp í Póllandi og Tékklandi. NATO ríkin eru blóðug upp fyrir axlir í Írak; og hafa þau einhvern tíma gert upp við fortíð sína, valdaránið í Grikklandi árið 1967 og fleira.
En Come on Ingibjörg Sólrún! Hættu þessari vitleysu. Heimurinn er að farast úr þessu bulli. Farðu á næsta NATO-þing og syngdu fyrir þá Imagine og haltu ræðu einsog Chaplin. Ef þú vilt syngja fleiri lög get ég komið heilan lagalista handa þér. Ég mæli með Masters of War eftir Bob Dylan. Vertu jafnvel í lopapeysu. Þú getur líka vitnað í Halldór Laxness og sagt þessum hernaðarsinnum að þeir eigi ekki að drepa fleiri en þeir geti étið. Að sú hafi verið skoðun Bjarts í Sumarhúsum. Ef þú gerir þetta verður þín minnst á blöðum sögunnar. Ef ekki, þá hefur þú bara lent í vondum félgasskap einsog stundum hendir unglinga, og við verðum að reyna að bjarga þér. Flokkssystkini þín munu reyna að koma fyrir þig vitinu, sem sé, að þú átt frekar að syngja með draumóarmönnunum en taka undir stríðsæsingar Georgs Bush. Samþykktir NATO í Búkarest gagnast þegar upp er staðið engum nema vopnaframleiðendum og hálf tjúlluðum hugmyndum þeirra um geimvarnarhjálm yfir lönd okkar. Ef þú vilt ekki þiggja þessi einföldu ráð og segir bara að þetta séu draumórar þá getum við ekkert fyrir þig gert og verðum að leyfa þér að ná botninum í þessum vonda félagsskap, sem kyndir markvisst undir stríði og ómældum þjáningum fólks sem ekkert hefur gert okkur.
...
Ágæti áhorfandi, ég geri fastlega ráð fyrir að þú sért að velta fyrir þér fjárfestingum, það er víst enginn maður með mönnum nema hann velti fyrir sér fjárfestingum. Kannski vantar þig íbúð, en það er hættuspil að kaupa íbúð. Þær lækka bráðum um þrjátíu prósent og þá skilst mér að taugadeildirnar fyllist af fasteignasölum. Það er eiginlega merkilegt að þegar seðlabankastjóri hittir naglann á höfuðið þá verða allir vitlausir. Ásamt bílstjórunum virðist hann geta hleypt öllu í bál og brand.
Það er bara staðreynd að íbúðir mega alveg vera þrjátíu prósent ódýrari en þær eru og það eru þessir sömu fasteignasalar og fá taugaáfall yfir orðum seðlabankastjóra sem eru búnir ásamt spjátrungum úr bankakerfinu að kjafta upp verðið á fasteignum. Um meira en hundrað prósent. Hvað hefði verið sagt ef Seðlabankinn hefði spáð því? Með því verðlagi sem verið hefur á fasteignum er verið að taka alla sjálfsbjargarviðleitni af ungu fólki. Það getur ekki hreyft sig og ef það hreyfir sig situr það í skuldafangelsi það sem eftir er.
Þessi hundrað prósent lán sem Framsóknarmenn komu á með sjónvarpsauglýsingum, sem gylliboðum til ungs fólks sem nú situr í súpunni, ætti nánast að flokka undir refsivert athæfi eða að minnsta kosti fullkomið ábyrgðarleysi. Ef einhvern veginn er hægt að snúa þessari þróun við þá gerið það STRAX! Nema ef stefnan er sú að fjölga eigi á biðlistum félagsbústaða.
Hingað var ég kominn í pistlinum, sem ég ætlaði að leiða að því að skynsamlegasta fjárfestingin væri í ljóðabókum, en þá greip lögreglan inn í atburðarrás orðanna með barsmíðum sem gefa mun ráðherrum ríkistjórnarinnar færi á að segja við kollega sína í öðrum löndum, við höfum alveg sambærileg vandamál og þið, við þurfum líka að berja fólk, og tindátaleikurinn getur haldið áfram, sérsveitir, hjálmar, skildir, úðunarbrúsar, you name it, en allt fæst þetta í dótabúð valdsins sem býr sig undir grimmdarlegri stéttaskiptingu en nokkru sinni fyrr, niðurbrot velferðarkerfisins og einmitt með aðstoð þeirra flokka sem byggðu það upp. Svona er heimurinn skrýtinn!
Hafi lögreglan ætlað hrista af sér slyðruorð, vegna hvatningar frá þingmönnum, misskildi hún algjörlega hlutverk sitt. Hún átti að halda áfram að gefa bílstjórum í nefið og gera slíkt hið sama næst þegar náttúruverndarsinnar vilja koma boðskap sínum á framfæri, þó ekki viti ég hve mikið þeir eru fyrir neftóbak. Í leiðinni hefði mátt draga tilbaka kærur á hendur Ólafi Páli og öðrum náttúrubörnum. Við viljum lögreglu sem býður í nefið, ekki áhættuleikara með úðunarbrúsa og einhvers konar kokkahúfur á höfðinu. Af hverju voru úðunarbrúsamennirnir, fremsta víglína, ekki með hjálm, bara baksveitin?
En gert er gert. Ég ætla ekki að taka afstöðu til einstakra krafna bílstjóranna. Hitt vil ég benda á að reiði þeirra er reiði sem kraumar undirniðri í öllu þjóðfélaginu og er tákn um dáðleysi stjórnvalda. Sturla segir, þeir eru búnir að vera athuga málin í þrjú ár og eftir standa Sturla og félagar með tuttugu tonna mótmælaspjöld. Sú ríkisstjórn sem nú situr við völd virðist skipuð einhverju værukærasta liði sögur fara af. Þeir vísa öllu frá sér, ekki síst loforðunum sem þeir gáfu og dettur ekkert í hug nema að leyfa innflutning á svínakjöti og heyja stríð við bændur.
Er nema von að Bjartur í Sumarhúsum vakni og bílstjórarnir á Suðurlandsveginum eru að vekja hann. Brátt verður tími þjóðarsáttar fyrir bí, en það er ekki út af bílstjórunum, það eru stjórnvöld, þau vilja einfaldlega ekki sættast við fólkið í landinu ... og að því sögðu lofa ég pistli þar sem ég sýni fram á að fram á að ljóðabækur eru besta fjárfesingin ... Ég mæli með þessari til að byrja með ... heildarsafni á ljóðum Ísaks Harðarsonar.
...
Við eigum tvö góð orðtök á tungu okkar sem í fljótu bragði virðast stangast á. Annað segir: Heimskur er sá sem heima situr, en hitt er Heima er best. Þetta þýðir í rauninni að við eigum að fara burt og koma svo aftur, eða með öðrum orðum: Við eigum að vera opin fyrir heiminum en rækta okkar eigin garð. Þannig kemur heimurinn til okkar og við til hans.
Margir líta svo á að alþjóðavæðingin hafi fokkað þessu upp, að menn séu hvorki heima hjá sér né að heiman, en í gegnum tíðina höfum við litið svo á að við eigum að vera sjálfstæð en í stöðugum samskiptum við umheiminn. Nú virðist hins vegar sjálfstæðið hætt að skipta máli af því að það sé hvort eð er horfið.
Bjartur í Sumarhúsum sagði að sjálfstæði væri betra en kjöt. Því virðist nútíminn algjörlega ósammála. Nú má nánast gefa allt fyrir ódýrar matvörur þó flestir virðist hafa nóg að éta að því er best verður séð í hjáveituaðgerðum og öðru. Aumingja krónan, hún er einsog Bjartur í Sumarhúsum, nema ekki jafn stolt, og erfitt um að segja hver sé Rauðsmýrarmaddaman, seðlabankastjóri eða evruspekingarnir með erkibiskupsboðskap á vörunum.
Hugmyndir Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, innblásnar af þýsku rómantíkinni og frönsku byltingunni, hafa ekkert gildi lengur ef við getum étið á okkur gat af innfluttu svínakjöti og þegið um leið reglugerðir um allt milli himins og jarðar. Þetta er veruleikinn, en spurningin er, hvað finnst okkur um hann? Hver er við völd? Er það feiti þjónninn eða barði þrællinn?
Fyrir nokkrum árum stóð til að Færeyingar hlytu fullt sjálfstæði. Deilt var um aðlöðunartíma. Færeyingar vildu hafa hann fimmtán árum lengri en danska stjórnin vildi veita þeim. Nú kunna að hafa legið ýmis rök fyrir því, en samt var þetta skrýtið. Ég fór að hugsa, hvað hefðu íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sagt við þessu? Nú eða Bjartur í Sumarhúsum?
Kannski eru Færeyingar bara svona vel upp aldir, að þegar þeim er boðið að verða sjálfstæðir strax vilja þeir fá að vera ósjálfstæðir fimmtán árum lengur. Er það ekki bara staðreynd að nú er feiti þjónninn við völd og allir hugsa með hans höfði. Þannig er búið að valta yfir Bjart í Sumarhúsum og allar hugmyndir um sjálfstæði eru afgreiddar sem fortíðarhyggja. Í samræmi við þetta eru jafnaðarmenn orðnir að einskonar burðardýrum fyrir frjálshyggjuna. Þeirra hlutverk er að halda hugmyndafræðinni að fólki, til dæmis í kosningum, en framkvæma síðan hreina og klára hægristefnu. Síðan taka þeir út refsinguna í kosningum og næsti tekur við.
Því segi ég einsog Halldór Laxness, skapari Bjarts í Sumarhúsum, eigum við ekki að lyfta umræðunni á hærra plan? Skiptir til dæmis sjálfstæðið okkur máli? Viljum við búskap? Viljum við byggð? Ætlum við bara að vera kotungar hjá kóngi og smjaðra fyrir skriffinnum? Á bara að svifta öllu burt með snyrtilegum reglugerðum og skjóta málinu markaðarins sem mállaus vinnur sín verk? Hvar stöndum við sem hreiðrað höfum um okkar á þessar hrjótrugu hundaþúfu undir Grænlandsjökli? Jú, heimskur er sá sem heima situr en heima er best.
...
Einar Már Guðmundsson's Blog
- Einar Már Guðmundsson's profile
- 66 followers

