Skilabo
Herhvöt úr norðri
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Þetta er ljóðið Herhvöt úr norðri og það er á margan hátt viðeigandi að hefja þessa ritsmíð á því, ekki bara af því að ljóðið lýsi því sem við er að eiga heldur orti ég það á Sjómannaheimilinu í Klakksvík í Færeyjum í febrúar 1993 þegar bankakreppan reið yfir Færeyjar.
Þar var ég staddur í upplestraferð og þá sögu hef ég sagt annars staðar, og ekki ætla ég að blanda Færeyingum í fjármálakreppuna sem nú ríður yfir Ísland. Þó kreppan sé sögð alþjóðleg ætla ég að reyna að halda mig sem mest við Ísland.
...
Í öllu þessu umróti hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hafði Karl Marx rétt fyrir sér? Vinur minn, sem enn á öll bindi Auðmagnsins og hefur lesið þau, segir mér að ástandið einsog það blasir við nú sé tekið til umfjöllunar í þriðja bindinu, en fáir hafa víst lesið það vegna þess hvað það er mikil stærðfræði í öðru bindinu.
Þetta segir vinur minn, sem ekki lætur sér nægja að eiga öll bindi Auðmagnsins, heldur les þau líka, og það er meira en ég hef gert og flestir aðrir.
Þessi vinur minn segir að í þriðja bindinu tali Karl Marx um skáldlegt auðmagn, fiktíft kapítal, en þá mun víst engin verðmætasköpun vera á bak við gróðann heldur ganga bara verðlausir pappírar manna á milli, verðlausir í þeim skilningi að þá mun enginn raunveruleiki vera til staðar.
Slíka svikamyllu smíðuðu íslensku kapítalistarnir, sem oft voru kallaðir útrásarvíkingar og sagðir töff og flottir. Þeir birtust sem hálfguðir í blöðunum sem þeir áttu sjálfir, þóttust verndarar góðra málefna og konur þeirra létu sér annt um börnin í Afríku. Þær sögðust vilja gefa af sér, því þeim gengi svo vel af því mennirnir þeirra væru svo duglegir í vinnunni og heppnir í nánast öllu sem þeir tækju sér fyrir hendur. Þeir keyptu sig inn í félög, náðu þar meirihluta, stofnuðu ný félög og seldu hver öðrum og hirtu verðmætin úr gömlu félögunum, eigur hluthafanna. Þetta var svikamyllan. Þannig fór með mörg verðmæt fyrirtæki. Síðan birtust þeir aftur í blöðunum sínum, höfðu keypt sér skíðabrekkur í Ölpunum, lúxusíbúðir á Manhattan og snekkjur í Flórída. Þetta voru aldeilis lukkunnar pamfílar.
Takið eftir, ég notaði orðið svikamylla. Það er samt ekki rétta orðið, því þetta gerðist allt samkvæmt lögmálum markaðarins og með blessun hans. Engin lög og engar reglur komu í veg fyrir athafnir fjármálafurstanna. Stjórnmálamenn landsins voru steinsofandi, ypptu öxlum og skáluðu við fjármálafurstana, voru jafnvel móðgaðir ef þeim var ekki boðið í veislurnar sem höfðu yfir sér hollywoodljóma, glamúr og glimmer.
...
Þegar frjálshyggjumenn tala um markaðinn nota þeir trúarlegt orðalag. Þeir segja: "Markaðurinn ræður þessu." Eða: "Við látum markaðinn sjá um það." Það þarf ekki annað en að skipta út orðinu markaður og setja inn orðið guð og þá verður trúarlegt innihald frjálshyggjunnar ljóst. Hin ósýnilega hönd verður að vilja guðs, og það alveg óháð því hvað mönnum finnst um guð, en Mammon er slyngur og bregður sér í ýmis gervi.
Sem sé, útrásarvíkingarnir, fjármálafurstarnir, íslensku kapítalistarnir eða hvað hvað menn vilja kalla þá voru aðeins að færa markaðnum eða Mammoni sínar fórnir. Leikreglurnar voru til og þeir nýttu sér þær. Ofan í þetta koma svo ofurlaunin, kaupréttarsamningarnir, bónusgreiðslur og fleira skemmtilegt. Það varð til ný stétt á Íslandi, stétt ofurefnamanna sem gerði miðstéttina að bónbjargarmönnum og lágstéttina að aulum. Allt gildismat riðlaðist. Venjuleg störf, einsog störf kennara, þóttu hallærisleg. Enginn tók lengur strætó. Allir settust upp í nýja bíla, jafnvel bíla sem menn áttu ekki, heldur skulduðu frá dekki og upp í topp.
Bankastjórarnir í einkavæddu bönkunum fóru mikinn. Þeir litu á störf sín sem slík afrek að þeir tóku sem svaraði Nóbelsverðlaunum í mánaðarlaun. Væri þeim bent á þessa ofrausn við sjálfa sig settu þeir upp fýlusvip og hótuðu að fara úr landi. Menn hefðu betur gert einsog í Grettissögu, að óska þeim góðrar ferðar og biðja þá að koma ekki aftur. En þeir sögðu að slík eftirspurn væri eftir sér erlendis. Það var jafnvel hægt að ímynda sér að þeir yrðu klónaðir svo allur heimurinn gæti baðað sig í dýrð þeirra. Svo átti Íslensk erfðagreining að finna öfundargenið hjá þeim sem leyfðu sér að gagnrýna þá. Einn þessara manna talaði um það að hann myndi jafnvel setja doktorsnema í að kanna öfundsýki Dana í þeirra garð.
...
Ég kem nánar að þessu seinna, því nú vill Karl Marx að ég geri viðhorfum hans betri skil. Það er sagður munurinn á Karli Marx og flestum hagfræðingum nútímans að hann hafi haft sögulega yfirsýn, að hann hafi litið á söguna sem kennslustofu og dregið af henni lærdóma. Að því leyti voru vinnubrögð hans ekki ólík vinnubrögðum epískra skáldsagnahöfunda, nema bara á öðru sviði. Sannleikurinn er hluttækur, sagði Marx, svipað og skáldsagnahöfundurinn sem viðar að sér staðreyndum og vinnur úr þeim. Hér er því um samsvaranir að ræða og þær eru ekki óskyldar nútímabókmenntum, það að ólík svið eigi sér hliðstæður, correspondance.
Karl Marx mun hafa séð veruleika hins skáldlega auðmagns út frá kreppunni sem varð um miðja nítjándu öld, 1859 að mig minnir. Sú kreppa mun vera sú dýpsta sem riðið hefur yfir borgaralegt þjóðfélag ásamt kreppunni miklu árið 1930 og þeirri sem nú gengur yfir. Ef þessar kreppur eru eldgos eru aðrar kreppur jarðskjálftar, afturkippir ýmis konar, sumir staðbundnir. Um miðja nítjándu öld stóðu yfir miklar samgönguframkvæmdir í Evrópu sem hrundu með svipuðum skelli og fjármálalífið gerir núna.
Við vitum líka að kreppan 1930 var offramleiðslukreppa en kreppan nú árið 2008 er offjárfestingarkreppa og því hefst hún í fjármálastofnunum og bönkum. Auðvitað stendur fólk agndofa andspænis græðginni sem fylgt hefur þessu nýhrunda fjármálakerfi. Til dæmis hafa sumir af íslensku fjármálafurstunum verið að birtast á listum yfir ríkustu menn í heimi. Þeir hafa ferðast um á einkaþotum og keppst um að trompa hver annan í alls konar hégóma. Hljómsveitir einsog Duran Duran hafa spilað í áramótaveislum og Elton John sungið í afmælum þeirra. Ég ætla ekki að fara að ræða tónlistarsmekk þeirra sem slíkan, en ýmsir listamenn hafa gerst hirðskáld þeirra og málarar.
Meira að segja forsetinn hefur ferðast með þeim yfir hálfan hnöttinn, kannski til að horfa á einn knattspyrnuleik og líkt þeim við mikilmenni í skálarræðum, vegsamað dirfsku þeirra og þeir hafa haft leiðtoga jafnaðarmanna í vasanum og þeir nánast verið einsog búktalarar auðmannanna, því eðli málsins samkvæmt hafa auðmennirnir þurft að finna sér andstæðing og hann hefur hluti þeirra fundið í Davíð Oddssyni sem gegnt hefur nær öllum störfum sem hægt er að gegna, verið borgarstjóri, forsætisráðherra og er nú seðlabankastjóri.
Baugsmenn, eða auðmennirnir í Baugsgroup, hafa kennt Davíð Oddsyni um fjármálakreppuna og óspart notað fjölmiðla sína til þess. Þessa fáránlegu gremju hafa jafnaðarmenn, til dæmis leiðtogi þeirra Ingibjörg Sólrún, étið eftir auðmönnunum sem tala um fjölskylduofsóknir þegar reynt hefur verið að taka á afbrotum þeirra og siðleysi. Davíð Oddsson hefur sakað þá um græðgi og spillingu, kallað þá óreiðumenn og beitt allri sinni mælskulist til að gera þá að fíflum.
En Davíð gleymir einu, að hann og hans stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, lögðu grunninn fyrir þessa menn með einkavæðingu bankanna og algjörum skorti á reglum í kringum starfssemi þeirra. Þar á líka Framsóknarflokkurinn stóran hlut að máli. Valgerður Sverrrisdóttir bankamálaráðherra og einn af leiðtogum Framsóknarflokksins sagði við einkavæðingu bankanna: " Þetta er stórmerkur áfangi, enda stærsta einkavæðing Íslandssögunnar." Og svo mikið lá henni á við einkavæðingu bankanna að sumarbústaðir og verðmætt málverkasafn fylgdu með, ókeypis. Þegar einhver leyfði sér að gagnrýna hana reif hún kjaft.
Stjórnmálamennirnir eru því í hlutverki Frankensteins en auðmennirnir skrímslin, sem algjörlega hafa vaxið efnahagskerfinu yfir höfuð og skuldsett þjóðina með þeim hætti að sé siðferðilegur mælikvarði þjóðríkisins lagður á málið kemur orðið landráð upp í hugann, og þess vegna, í þeirri stöðu sem landið er núna, er ekkert um annað að ræða en að gera eignir þessara manna upptækar og þá einungis til að borga upp í skuldir, þær skuldir sem þeir hafa skapað.
...
Á yfirborðinu er málflutningur Davíðs Oddsonar um óreiðumennina spilltu og gráðugu, alveg hárréttur, því óreiða og bruðl hefur verið með endemum. Ég segi ekki að það þurfi að leita aftur til Rómaveldis til að finna hliðstæður, nærtækara er að fara aftur á þriðja áratuginn, the roaring twenties, þegar Gatsby hinn mikli lét að sér kveða og skáldsagnapersónur einsog Babbitt fæddust. Babbitt á það einmitt sameiginlegt með mörgum af fjármálafurtstunum að þetta er maður sem vekur samúð sem slíkur, en undir sömu sökina seldur í græðgi og yfirborðsmennsku. En lítum okkur nær. Joseph Stiglitz, fjármálaráðgjafi Clintons, sjálfur frjálshyggjumaður sem ofbauð frjálshyggjan, skrifaði bókina The roaring nineties, sem fjallar um nákvæmlega það sem hefur verið að gerast í íslensku fjármálalífi, nema hvað að þar hafa menn einsog Enron mennirnir verið látnir svara til saka, en á Íslandi er fjárglæframönnunum boðið í mat hjá forsetanum á Bessastöðum til að heilsa upp fjárglæfrakvendið Mörthu Stewart, sem mun víst vera vinkona forsetafrúarinnar. Einhver myndi gera ráð fyrir að forsetinn útskýrði þetta fyrir okkur, þjóð sinni.
Þegar ég segi að jafnaðarmenn hafi verið í vasa auðmannanna er það engin illkvittni í þeirra garð. Staða jafnaðarmanna hefur á undanförnum árum breyst með þeim hætti að þeir hafa færst frá vinstri til hægri. Þeir hafa orðið burðardýr frjálshyggjunnar án þess að gera sér það ljóst. Tony Blair er upphaflegur holdgervingur þessarar stefnu og Gordon Brown, sem nú vill ganga frá Íslendingum, beint framhald af honum. Tony Blair laðaði til sín vinstra fylgi en framkvæmdi hreina og klára hægri stefnu. Þessi maður var helsta átrúnaðargoð íslenskra jafnaðarmanna og leiðtoga þeirra.
...
Þessi þróun er ekki spurning um snögg skoðanaskipti, heldur á hún sér rætur í sögulegum atburðum á borð við fall Berlínarmúrsins og þann veruleika sem í kjölfarið fylgdi og kenndur hefur verið við póstmodernisma. Ekkert verður einhlítt, allt afstætt, hægri og vinstri úrelt og þar fram eftir götum. Þessi staða helst í hendur við hnignun verkalýðshreyfingarinnar, minnkandi samtakamátt og samstöðu. Þetta kristallast í því að jafnaðarmenn bjóða ekki upp á stefnu heldur eitthvað sem þeir kalla samræðustjórnmál, og á sér hliðstæðu í afstöðuleysi póstmodernismans. Í síðustu kosningum sagði ég við jafnaðarmann að það væri sorglegt hvað flokkur hans léti sig verkalýðinn litlu máli skipta. Jafnaðarmaðurinn leit á mig og sagði: "Verkalýðurinn! Hvaða verkalýður? Þetta eru nokkrir útlendingar." Það er ekki að búast við beysinni stefnu úr andrúmslofti þar sem slík viðhorf svífa yfir vötnum.
En það er nákvæmlega þessi staða sem gefið hefur talsmönnm kapitalisma og frjálshyggju fullkominn frið og algjört svigrúm til að fara sínu fram. Formaður Samfylkingarinnar hefur mært auðjöfrana, tekið undir sjálfsvorkunn þeirra og gremju, og nánast gert það að stefnu sinni að þeir fái að ráða öllu, ekki bara verslun og viðskiptum heldur líka fjölmiðlum. Í þessu andrúmslofti hefur ekki verið teljandi andstaða við Íraksstríðið eða nokkurn skapaðan hlut. Stjórnmálamenn hafa fengið að vaða uppi í spjallþáttum, nánast einsog leikarar sem þylja sína rullu, og stór hluti æskulýðusins verið týndur í tækjadýrkun og peningasnobbi. Fávitavæðingin hefur grasserað, reyfarinn bókmenntir dagsins, mærður af yfirborðsmönnum.
Það er því ekki bara í gangi fjármálakreppa, sem nú skekur heimilin í landinu og allar undirstöður þjóðfélagsins, heldur djúpstæð andleg kreppa, sem gerir það að verkum að það verður enn erfiðara að mæta fjármálkreppunni, eða réttara sagt, yfirstéttin mun sleppa við skrekkinn og þjóðin lendir í klóm Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins, sem ef marka má fyrri störf hans mun krefjast enn frekari einkavæðingar og þess að velferðarkerfið verði brotið niður enn meira en orðið er.
...
Við höfum verið stödd í ævintýri sem heitir Nýju fötin keisarans, og vefararnir hafa sagt, ef þið sjáið ekki hvað við erum snjallir þá eruð þið heimsk, og ekki bara heimsk heldur öfundsjúk, sem er eiginlega verra en að vera heimskur, því heimska menn má senda á námskeið í góðu skólunum okkar. Já, látið okkur fá fiskimiðin, látið okkur fá bankana, og vatnið, fossana og orkufyrirtækin, og við förum með forsetanum um heiminn og segjum: Við erum best í heimi, og ef þið sjáið það ekki eruð þið ekki bara heimsk heldur líka öfundsjúk.
Kannski er Ísland tilraunastofa þess sem verða vill, og ef ekki, þá ýkt útgáfa af ástandinu, kreppunni, sem best sést á því að skuldsetning fjármálafyrirtækjanna er þjóðarframleiðslan margfölduð með tólf. Þó er einsog mig rámi í að fyrst hafi hrikt í ameríska húsnæðiskerfinu síðast liðið sumar og það mun vera gömul speki og ný að þegar hnerrað sé í Ameríku þá fái heimurinn kvef, en íslenska hagkerfið er ekki bara með kvef heldur lungnabólgu sem ræðst á alla innviði þess. Um leið verður það æ skýrara að ameríska húsnæðiskerfið, sem hrundi, og íslenska bankakerfið, sem nú er líka hrunið, eru líkari tvíförum úr bókmenntaverkum fermur en að um einstæð furðuverk sé að ræða, þó vissulega séu hér miklar furður á ferð.
Samt er of snemmt að segja hvað kreppan þýðir og hvert framhaldið verður. Ljóst er að fjöldi fólks stendur eftir gjaldþrota og ráðþrota og partíið er búið. Timburmennirnir sem því fylgja verða langvinnir, en hafi kerfið náð sínum botni má búast við að það fari að birta. Skoða má græðgina sem fíkn, stöðuga neyslu, þar sem ímynduðum peningingum er dælt inn í hagkerfið og fíklarnir þurfa meirra og meira, og engin leið tilbaka fyrr en allt hrynur.
Einsog staðan er nú fær Alþjóðlegi Gjaldeyrissjóðurinn líklega það hlutverk að tína feitustu bitana úr velferðarkerfinu, einkavæða orkulindir og heilbrigðiskerfi og fullkomna þannig ætlunarverk frjálshyggjunnar. Þó er aldrei að vita nema feiti þjónninn ranki við sér nú þegar hann er orðinn barinn þræll, og þá munu orð ljóðsins hrína á veruleikanum.
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
V ið roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
Einar Már Guðmundsson's Blog
- Einar Már Guðmundsson's profile
- 66 followers

