Skilabo
Gamlir rithöfundar eru góðir, dauðir eru enn betri og þeir sem hafa farið í hundana eru langbestir. Ég tala nú ekki um ef þeir eru bæði dauðir og hafa líka farið í hundana, þá er allt fullkomnað og ekki bara fullkomnað heldur fullkomið.
Nei, ég er ekki að segja mína skoðun, heldur spyr ég ykkur, áhorfendur góðir, hafið horft á bókmenntaþáttinn Kiljuna? Þetta virðist vera helsti boðskapur þáttarins gagnvart rithöfundum samtímans og ritlist liðinnar aldar.
Að því sögðu vil ég taka það fram að mér líkar ágætlega við þáttinn. Stjórnandinn er glaðvær og skemmtilegur og tekur oft góð viðtöl. Leyfið mér að nefna umfjöllunina um Klepp, viðtöl við Héðin Unnsteinsson, Óttar Guðmundssin og Bill Holm og sömuleiðis gott spjall við heimspekinginn Zizek. Og fleira mætti telja. Þetta er með öðrum orðum kærkominn þáttur og langþráður.
En hvað eftir annað kemur upp sú umræða hjá stjórnandanum og álitsgjöfum hans að rithöfundar nútímans séu ekki bara lélegir heldur hreinlega leiðinlegt fólk og lítilsiglt og þjáist ekki nógu mikið af kvillum sem rithöfundar eiga að þjást af. Það er ekki einu sinni hægt að taka viðtöl við rithöfundana, þeir hafa svo litlu að miðla, svo búa þeir jafnvel í Grafarvoginum og eiga börn.
Ja, hugsa sér! Öðruvísi mér áður brá, fussar kvenpersónan í þættinum, og myndi spýta út í horn sæti hún í baðstofu. Faulkner, segir hún, hann sagði að rithöfundar ættu að búa á hóruhúsum og þá bætir hinn glaðbeitti stjórnandi við að annar frægur höfundur hafi tekið á móti blaðamönnum á náttfötum. Já, hvílík snilld!
Sjáið svo þessa nútímahöfunda, þeir hafa ekkert að segja, bara þessir dauðu og þessir gömlu og allir þeir sem fóru í hundana. Af hverju fara þessar umræður ekki fram á miðilsfundum eða kannski á hóruhúsi þar sem menn ræða málin í náttfötum? Þangað gætu allir glötuðu snillingarnir mætt, vitru rónarnir, taóísku klósettverðirnir og allar hinar klisjurnar.
Vigdís Grímsdóttir orðar þetta vel í pistli í DV: "það er ótrúlega rómantískt glimmerpjattið yfir tali fólks í dag um svelti rithöfunda, fyllirí, hark og eilífðarsnilli; það er líka gott að sitja í bólstruðum nútímastólunum, strjúka eigin vömb, vagga sér í lendunum með stjörnur í augunum og sakna fátæktar annarra."
Já, rétt hjá þér Vigdís, það er í rauninni ótrúlegt að þessi viðhorf skuli vera jafn inngróin meira en hálfri öld eftir að Halldór Laxness skrifaði Skáldatíma og Íslendingaspjall og endurminningabækurnar auk margra stórmerkra ritgerða um nákvæmlega þetta efni, þessar gömlu hugmyndir rómantíkurinnar um listamanninn sem lítillækkaðan borgara, bóhem, já í rauninni aula sem borgararnir geta spottað úr bólstruðum nútímastólunum.
Rithöfundar 20. aldar höfnuðu algjörlega þessum viðhorfum og börðust gegn þeim af alefli. Halldór Laxness eyddi gríðarlegu púðri í að afhjúpa þessa afmennskun skáldsins. Hann skrifaði ótal greinar, um einmitt hvernig hráslagaleg rónadýrkunin lék margan góðan dreng, til dæmis Jóhann Sigurjónsson og Stein Steinarr. Hemmingway boðaði vinnusemi, öguð vinnbrögð, þó hann skemmti sér á milli, Gunter Grass setti fram það viðhorf að rithöfundurinn væri einsog hver annar borgari og Gabriel Garcia Marquez var þeirri stundu fengnastur þegar hann eiginaðist rafmagnsritvél, hljóðlausa.
Það er stórfurðulegt að í upphafi 21. aldarinnar sitji enn fólk í hægindum sínum og smjatti á þessum gömlu lummum, uppfullt af auladýrkun í stíl við úr því að þeir krossfestu þig kristur hvað gera þeir við ræfil einsog mig, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu línu úr ljóði Vilhjálms frá Skáholti. Spurningin er: Eiga íslenskir rithöfundar að vera einhverjir eymdarlegir sýningargripir sem leika Job úr Jobsbók Biblíunnar til að hlæja megi að þeim í sjónvarpsþáttum eða er hér ekkert annað á ferðinni en sú yfirborðsmennsku sem nú ræður ríkjum?
Ég held að barnið í Nýju fötin keisarans ætti ekki í vandræðum með að sjá það, en ég er kannski jafn vitlaus og barnið í ævintýrinu, enda bý ég í Grafarvoginum og segi bara einsog skáldið og læknirinn William Carlos Williams: Það er fátt fréttnæmt í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan vegna skorts á því sem þar er að finna.
Einar Már Guðmundsson's Blog
- Einar Már Guðmundsson's profile
- 66 followers

